<META NAME="ROBOTS" CONTENT="NOINDEX, NOFOLLOW">

Breytt í okóber 2003

Sumarhús á besta aldri flytur um set.

Þessar myndir voru settar á vefinn nánast jafnóðum og þær voru teknar.

Sumarhúsið stóð við Laugarvatn, en var flutt á landskika nærri Geysi 5. janúar 2002.

Húsið gæti verið frá um 1970, en var breytt verulega einhvern tíman eftir 1980, þegar það var m.a. stækkað. Vitað er að smiðir voru mikið að vinna við það um 1990, en ekki nákvæmlega hvað gert var.

 

Hér sést húsið frá suð-vestri, þar sem það stóð fyrir flutning. Stór pallur er í suð-vestur horninu og nær hann norður fyrir húsið.

Lengst til vinstri í viðbyggingunni er rúmgóð geymsla með heitavatnskatli. Glugginn er á baðherberginu, en þar er sturta.

 Á aðalbyggingunni eru fjórir gluggar á vesturhlið yfir eldhúsborðinu. Úr stofunni eru dyr út á pallinn. Myndin er tekin í september 2001.

 

Hér sést húsið frá suð-austri. Á austurhlið eru litlir stofugluggar og síðan þrír stærri gluggar á svefnherbergjum. Þessi hlið mundi snúa í átt að flugvellinum, eða suð-austur, en stóru gluggarnir í suð-vestur.   

Milli litlu stofuglugganna og svefnherbergisglugganna má rétt greina hvar skorsteinn frá ofni hefur farið í gegn um vegginn.

 

Gengið er inn í húsið að norðanverðu. Hægra megin við aðaldyr eru dyr að geymslunni.

Pallurinn nær hálfa leið umhverfis húsið.

 

Hér sést inn í stofuna.

 

Hér sést úr stofunni fram í eldhús. Þar sem glittir í hvítt í dyrunum er klæðaskápur í hjónaherberginu. Veggurinn þar er á ská. Þar á veggnum hægra megin eru tvennar dyr að barnaherbergjum, en í hverju þeirra eru tvær kojur. Raflagnir eru nokkuð áberandi á þessari mynd, en nú er hægt að fá rafmagnsstokka úr viðarlíki hjá S&N, og er þá hægt að hylja raflagnir betur. Ef gengið er eftir ganginum/eldhúsinu, þá er beygt til vinstri í anddyrið, en þar innst er baðherbergið.

Már snýr baki í myndavélina, en Jón smiður er hægra megin.Sigrún í baksýn.

 

Í þessu horni hefur eitt sinn verið ofn, og sést hvar strompurinn hefur farið í gegn um vegginn. Hér væri upplagt að hafa viðarofn.

 

Þessi samsetta panoramamynd var tekin frá einu horni pallsins.Hér gæti verið gott skjól í norðanáttinni.

 

 

Þetta er hluti teikningar af húsinu sem gera þurfti og leggja inn hjá byggingafulltrúa.  Að sjálfsögðu gerði eigandinn sjálfur þessa teikningu, svo og raflagnateikningu. Húsið er um 65m2 að utanmáli og pallur um 83m2.

(Villa í teikningu: Allar útihurðir opnast út. Lamir á forstofuhurð eru hinum megin)

 

Húsinu virðist hafa verið vel við haldið. Tvöfalt verksmiðjugler í öllum gluggum.

Engan fúa var að finna og þakjárn óryðgað. Botn ófúinn. Klæðning er aðeins farin að losna og þarf að negla hana niður.

Mála þarf þak í dökkum lit, svo og þakskegg, glugga og dyr, svo húsið falli betur inn í umhverfið.

Sjálfsagt er að yfirfara og einangra betur botn áður en gengið er frá húsi á nýjum stað.

 

--- --- ---

 

Nú er stóra stundin runnin upp.

Flutningur og frágangur.

 

Undirstöður komnar 15. desember 2001. Þær ná 2,5m niður á ísaldarruðning. Geysissvæðið í baksýn. Heppnin var með okkur, því vetur var einstaklega mildur svo auðvelt var aðsteypa undirstöður.

 

Hús á flugbraut 5. janúar 2002. Jói á Brekku að gera sig kláran. Heppnin var ennþá með okkur, því nú var kominn smá klaki í jörð og hún því fastari fyrir. Hiti rétt fyrir ofan frostmark og logn.

 

Húsið er 10,5 metra breitt !

Sumir eiga erfitt með að trúa að það hafi verið flutt í heilu lagi. Leggja þurfti niður staurinn vinstra megin.

 

Hús komið upp á veginn á barðinu. Á undan var 50 tonna krani. Ekki sér mikið á veginum.

Björn og Ragnar fylgjast með.

 

Samsett mynd sýnir aðstæður.

 

Húsið komið óskemmt á sinn stað 5. janúar. Veður var einstaklega gott.

 

Rafmagn frá rafstöð var komið á húsið klukkustund eftir að það var komið á undirstöður 5. janúar. 50 W sólarorkuver í forgrunni, en það var mikið notað þar til rafmagn kom í júlí.

Þessi mynd er tekin um kl. 11 að morgni 13. janúar.

 

Rafstöðin var aðeins 250 wött. Sparperur og flúrperur þurfa ekki mikið.

Enn vantar pallinn.

 

Myndin var tekin laust eftir kl. 9 að morgni  13. janúar.

 

Útsýn úr stofuglugga er yfir Almenningsá. Enn vantar húsgögn.

Ofnar eru samtals um 6 kW, en rafmagn vantar. 4 kW gasofn undir glugga. Um 170m sunnan húss er 11 kV raflína. Þaðan mætti fá rafmagn.

 

Viðarofn var tekinn í notkun 9. mars. Eftir það var hægt að gista í húsinu. Hluti húsgagna sem fylgdi sést.

 

Myndin er tekin í mars 2002. Búið er að mála þakið mógrænt, svo og þakskegg og gluggakarma. Það ver gert í febrúar, kaldasta febrúarmánuði frá 1935.

 

Svona leit húsið út 11. ágúst 2002. Veggir hússins eru enn svartir, en þakið, þakskegg, gluggar og handrið er hér mógrænt. Ekki var lokið við að mála fyrr en vorið 2003.

Rafmagn komið frá Rarik og kalt vatn frá vatnsveitu Bláskógabyggðar komið í hlað. Unnið við frágang á rotþró. Búið að setja 15 cm viðbótareinangrun undir hús og klæða með tjörutexi.

 

Pallurinn kominn í notkun. Pallurinn var olíuborinn skömmu síðar, en ekki náðist að mála útveggi vegna úrkomu. Það verður að bíða til vors.

 

Veðrið var einstaklega milt haustið 2002.

Myndin er tekin á vetrarsólstöðum um hádegisbil. Enginn klaki var í jörðu þegar grenitréð var gróðursett.

Í baksýn sést Laugafell, Geysissvæðið og skógræktin í Haukadal.

Á myndinni má sjá, að búið er að setja gler í austurhlið húss, þar sem áður voru 3 hlerar, eins og sést á næstefstu myndinni.

 

 

11. janúar 2003. Sófasettið fylgdi ekki með í kaupunum, en nánast allt annað sem var í húsinu þar sem það stóð áður.

 

Vetrarnætur fjarri byggð geta verið rafmagnaðar.

Myndin er tekin laugardagskvöldið 1. febrúar ´03 á Canon PowerShot S230 stafræna myndavél. Lýsingartími var 15 sek og næmi 100 ISO.  Tungl var ekki á lofti, en samt var sæmilega ratbjart í birtu frá norðurljósum. Um 15° frost var þegar myndin var tekin frá sumarbústaðnum.

Fjallið er Bjarnarfell og er Geysir rétt fyrir utan myndina til hægri.

Norðurljósin myndast þegar sólvindurinn skellur á efstu lögum lofthjúpsins, og er þetta því orka sólar,  -  en er þetta sólin sem er undir fjallinu?    Féll hún af himnum ofan?

Undir Bjarnarfelli við Stalla er lítið gróðurhús. Það er lýst upp með háþrýsti natríumlömpum til að búa til gervisólarljós. Húsið er hitað með vatni úr iðrum jarðar, og þar eru ræktaðar agúrkur þó fimbulkuldi og skammdegi sé úti. Hvaðan kemur orkan til að knýja þessa gervisól? Orkan kemur meðal annars frá sólinni, því sólin er orkugjafi vatnsorkuvera. Án sólar væru engar ár til að virkja.  Einnig er það kjarnorka, því orkugjafi jarðgufuorkuvera er kjarnorka í iðrum jarðar. Vatnsorkuver eru því nánast sólarorkuver og jarðgufuorkuver kjarnorkuver. Hvaðan kemur svo orka sólar? Auðvitað er það hrein kjarnorka.  Er þá ekki vatnsorkuverið einnig óbeint að beisla kjarnorkuna?

Það má því segja að þetta sé sólin sem er undir fjallinu, eða næstum því.      …Nú eða bara ljósmengun  :-(  

 

 

14. september 2003. Séð frá tanganum við Almenningsá. Um 20 mannhæðar háar birkiplöntur voru settar niður nærri húsinu sumarið 2003. Ein þeirra sést hér. Þær eru af fræi sem safnað var af birkitrjám sem Hákon Bjarnason plantaði í Haukadal um 1940, þar sem minnismerki um hann og Sigurð Greipsson standa. Hér eru útveggir hússins orðnir brúnir og húsið nánast fullklárað. Dökkir jarðarlitir gera það að verkum, að ekki ber mikið á húsinu úr fjarlægð.

 

Sex fjölskyldur eiga um 20ha lands sem kallast Iðavellir, norðan við Almenning. Iðavellir standa á Bryggjuheiði, en voru í landi Haukadals II. Hver landskiki er því rúmlega 3 ha, en engar girðingar eru innan Iðavalla, og myndar landið því eina heild.  Húsið, sem myndirnar eru af, er lengst til vinstri á skika merktum ÁHB. Landið einkennist af þurrum lyngmóa með fjalldrapa, loðvíði  og smávegis birki. Búfénaður hefur haldið niðri gróðri. Blái reiturinn næst Almenningi, fyrir sunnan reit merktum ÁHB, er friðaður af íbúum Vingólfs fyrir beit, og þar mun væntanlega birki- og víðiskógur vaxa upp, með góðri hjálp Viðars þegna.

(Nú eru hús á reitum sem merktir eru ÁHB, SJ, GEH og SH).

Ný vatnsveita fyrir sveitina var lögð frá Haukadalsheiði um landið sumarið 2001, en í suðurlandsskjálftunum eyðilagðist gamla veitan, þar sem lindin þornaði upp.  Raflínan er rétt vinstra megin við suðurhlið Iðavalla, en eins og sjá má, þá er hún tekin í jörð sunnan flugbrautar.

--- --- ---

 

Næstu skref?

Mikið verk er fyrir höndum, þó húsið sé nánast tilbúið.

Björn Jóhannsson landslagsarkitekt (www.landslagsarkitekt.is) vann þetta skipulag byggingareits á staðnum og í samráði við eigendur 3. janúar 2003. Þetta er smækkuð og klippt mynd af teikningunni. Þessi teikning er auðvitað bara hugmynd, eins konar  umræðugrundvöllur.

 

 

Þegar hefur verið plantað rúmlega 2500 trjáplöntum í landskikann, mest víði, birki og reyni. Rofabörð hafa verið grædd upp og gamlar girðingaleyfar fjarlægðar. Landið er stórt og er ekki er ætlunin að fylla það með trjágróðri, heldur planta trjálundum hér og þar.

 

--- --- ---

 

Nöfn á landi og húsi

 

Hvers vegna nafnið Iðavöllur? 

Völuspá fjallar um sköpun jarðar, og leik og störf landnema. Nafnið minnir á sögu landsins og heimspeki forfeðra okkar. Það minnir okkur á að fara vel með landið, virða það og varðveita vel.

Hittust æsir
á Iðavelli,
þeir er hörg og hof
hátimbruðu;
afla lögðu,
auð smíðuðu,
tangir skópu
og tól gerðu.

 

En hvað heitir þá húsið?

Úr Hrafnagaldri Óðins:

Vingólf tóku
Viðars þegnar,
Fornjóts sefum
fluttir báðir;
iðar ganga,
æsi kveðja,
Yggjar þegar
við ölteiti.

Í Gylfgaginningu er fjallað um Vingólf á Iðavelli.

"...   Hárr mælti: "Í upphafi setti hann stjórnarmenn í sæti ok beiddi þá at dæma með sér örlög manna ok ráða um skipun borgarinnar. Þat var þar, sem heitir Iðavöllur í miðri borginni. Var þat hið fyrsta þeira verk at gera hof þat, er sæti þeira tólf standa í önnur en hásætit, þat er Alföðr á. Þat hús er bezt gert á jörðu ok mest. Allt er þat útan ok innan svá sem gull eitt. Í þeim stað kalla menn Glaðsheim. Annan sal gerðu þeir. Þat var hörgr, er gyðjurnar áttu, ok var hann allfagr. Þat hús kalla menn Vingólf. Þar næst gerðu þeir hús er þeir lögðu afla í, ok þar til gerðu þeir hamar ok töng ok steðja ok þaðan af öll tól önnur. Ok því næst smíðuðu þeir málm ok stein ok tré ok svá gnógliga þann málm, er gull heitir, at öll búsgögn ok öll reiðigögn höfðu þeir af gulli, ok er sú öld kölluð gullaldr, áðr en spilltist af tilkomu kvinnanna. Þær kómu ór Jötunheimum. Þar næst settust goðin upp í sæti sín ok réttu dóma sína ok minntust, hvaðan dvergar höfðu kviknat í moldinni ok niðri í jörðunni, svá sem maðkar í holdi. Dvergarnir höfðu skipazt fyrst ok tekit kviknun í holdi Ymis ok váru þá maðkar, en af atkvæðum goðanna urðu þeir vitandi manvits ok höfðu manns líki ok búa þó í jörðu ok í steinum. Móðsognir var æðstr ok annarr Durinn..."

 

........... auðvitað heitir húsið Vingólf.

 

 

.