Nýtt aðalskipulag Bláskógabyggðar: Er umhverfisslys við Geysi í uppsiglingu? Tillögur um skynsamlegri aðgerðir…

Úrklippa úr korti sem fylgir tillögu að nýju Aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Höfundur pistils hefur fært inn athugasemdir og breytt lit á tengiveginum sem var ekki nægilega áberandi, þrátt fyrir að umferðarþungi þar verði meiri en á Biskupstungnabraut. Litlu rauðu örvarnar eiga að gefa umferðarþungann til kynna. Gula strikaða veglínan er núverandi vegur.

Úrklippa úr korti sem fylgir tillögu að nýju Aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Höfundur pistils hefur fært inn athugasemdir og breytt lit á tengiveginum sem var ekki nægilega áberandi, þrátt fyrir að umferðarþungi þar verði meiri en á Biskupstungnabraut. Litlu rauðu örvarnar eiga að gefa umferðarþungann til kynna. Gula strikaða veglínan er núverandi vegur.

1) Í hnotskurn:

 1. Búist er við 3 milljón ferðamönnum árið 2025. Af þeim munu 2,1 milljón heimsækja Geysi. 12.000 manns á dæmigerðum sumardegi í 150 hópferðabifreiðum og 1.500 fólksbílum. Þetta er varlega áætlað.
  .
 2. Bílastæðin við Geysi eru þegar orðin of lítil og anna ekki hlutverki sínu. Ferðamenn eru farnir að leggja bifreiðum sínum meðfram þjóðveginum þegar stæðin eru yfirfull. Vandamálið fer vaxandi.
  .
 3. Breytt aðkoma að sömu bílastæðunum mun engu breyta þar um.
  .
 4. Ónæði og hljóðmengun sem stafa mun frá nýju vegastæði Biskupstungnabrautar og tengivegar að Geysi verður umtalsvert meiri en í dag. Ferðamenn munu ekki lengur upplifa kyrrláta náttúru við Geysi. Ljósmengun frá umferð eftir nýju vegunum verður margföld miðað við það sem er í dag. Ferðamenn munu ekki lengur upplifa norðurljósin eða stjörnuhimininn við Geysi.
  .
 5. Ný vegastæði Biskupstungnabrautar og tengivegar munu skera Almenning, sem er númer 737 á náttúruminjaskrá, nánast alveg frá náttúruperlunum Geysi og Haukadal, en í dag mynda þessi þrjú svæði eina heild. Það yrði óbætanlegt umhverfisslys.
  .
 6. Breyting á vegakerfinu yrði dýr framkvæmd. Vegastæði liggur að miklu leyti yfir votlendið sem er á náttúruminjaskrá, þörf er á brú yfir Tungufljótið ásamt tveim brúm eða ræsum yfir Almenningsá þar sem hún liðast fallega um votlendið.
  .
 7. Tengivegurinn er í raun skammtímalausn vegna þess að ferðamannafjöldinn getur átt eftir að aukast verulega sé horft til lengri tíma en til 2025 og bílastæðin á hótelsvæðinu munu þá miklu meira en yfirfyllast, en þau eru þegar nánast sprungin. Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir munu aftur á móti hafa mjög neikvæð og óafturkræf áhrif um alla framtíð. Forsendur vegaframkvæmdanna munu verða brostnar áður en vegurinn verður tekinn í notkun.
  .
 8. Risastórt bílastæði, jafnvel stærri en ferðamenn hafa kynnst í Reykjavík og með því öngþveiti sem fylgir, þétt við hverasvæðið, hefur mjög neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna.
  .
 9. Nú þegar er unnt að komast að Geysi og Gullfossi um tvo aðra vegi, Flúðaveginn og Einholtsveginn.
  Einholtsvegurinn er með bundnu slitlagi nema örstuttur kafli og Einholtsveginn mætti bæta með bundnu slitlagi.
  .
 10. Umferð vegna Kjalvegar er sífellt að aukast og smám saman er verið að byggja veginn upp og klæða með bundnu slitlagi. Best fer á því að tengja þessa umferð við Flúðaveginn eða Einholtsveginn.
  .
 11. Framtíðarlausnin er að setja upp aðal bílastæði fyrir ferðamenn, þ.e. rútur og bílaleigubíla, í hæfilegri fjarlægð frá hverasvæðinu.
  .
 12. Lausn til bráðabirgða er að skipuleggja betur núverandi bílastæði við Geysi og setja upp gangbrautarljós milli hverasvæðisins og hótelsvæðisins. Ódýr lausn sem skilar strax árangri.

2) Inngangur:

ISAVIA uppfærði nýlega spá sína frá árinu 2015 um fjölda ferðamanna til landsins og spáir nú 1.730.000 ferðamönnum árið 2016. Þessar tölur eiga þó aðeins við um þá sem koma með flugi, en hvorki með skemmtiferðaskipum né Smyril-Line.  Spár gera ráð fyrir að þessi fjöldi tvöfaldist á næsta áratug, þ.e. fram til ársins 2025. Varlega áætlað má því reikna með þremur milljónum ferðamanna til landsins árið 2025, jafnvel þremur og hálfri. En nú í september birti greiningadeild Arionbanka spá sem gerir ráð fyrir að strax árið 2018 verði talan komin upp í tvær og hálfa milljón. Spáin um þrjár milljónir ferðamanna árið 2025 hlýtur því að teljast varfærin.

Talið er að um 70% erlendra ferðamanna fari Gullna hringinn, eða Þingvelli-Geysi-Gullfoss. 70% af þremur milljónum er um 2.100.000. Árið 2025 má því reikna með um 2,1 milljón ferðamanna árlega á Þingvöllum, við Geysi og við Gullfoss; ef hærri viðmiðunartalan er notuð verða ferðamennirnir um 2,5 milljónir.

Ef deilt er með 365 í 2.100.000, þá verða því sem næst sex þúsund ferðmenn við Geysi að jafnaði alla daga ársins. Segjum að tvöfalt fleiri en meðaltalið komi að sumri til, og færri en meðaltalið að vetri til. Á dæmigerðum sumardegi árið 2025 gætu þeir orðið tólf þúsund. Þessi fjöldi kemur með stórum og smáum bílum og dreifist yfir daginn. Sé gert ráð fyrir á að meðalfjöldi farþega í hópferðabílum sé fimmtíu, og þrír í bílaleigubílum, þá gæti þetta jafngilt um hundrað og fimmtíu hópferðabílum og fimmtán hundruð bílaleigubílum á venjulegum sumardegi við Geysi árið 2025. Nú þegar eru bílastæðin við Geysi nánast sprungin. Það er því deginum ljósara að þau verða meira en yfirfull eftir áratug gangi spár um ferðamannafjölda eftir. Þá munu menn í miklum mæli neyðast til að leggja bílum sínum meðfram þjóðveginum eins og þegar er farið að bera á.

Það liggur í augum uppi að það veldur algjörri ringulreið að beina öllum þessum fjölda á bílastæðin við hverasvæðið. Í stað þess að upplifa íslenska náttúru og friðsældina gæti reynsla ferðamannanna orðið skelfileg, orðspor staðarins gæti hrapað og um leið landsins sem ferðamannastaðar.

Það er ekki laust við að þeir sem kunna að meta óspillta náttúru séu uggandi. Margir ferðamannastaðir eru komnir yfir þolmörk og liggja undir skemmdum. Sums staðar erlendis hefur verið gripið til skynsamlegra ráðstafana sem stýra aðgangi að náttúruminjum sem og menningarminjum. Hér á landi er nauðsynlegt að horfa til lengri tíma en gert hefur verið.

Stonehenge er vinsæll ferðamannastaður á Englandi og þangað hafa margir Íslendingar komið. Þegar fjöldi ferðamanna sem heimsótti staðinn árlega var kominn upp í eina milljón sáu vísir menn að eitthvað þyrfti að gera og að nauðsynlegt væri að koma með ferskar hugmyndir. Niðurstaðan var sú að reisa ferðamannamiðstöð ásamt bílastæðum í 2,5 kílómetra fjarlægð frá fornminjunum og selflytja ferðamenn þaðan í léttbyggðum vögnum. Áður voru bílastæðin í örstuttu göngufæri frá minjunum með tilheyrandi umhverfisspjöllum.

 

Hingað til hafa menn verið að reyna að bæta úr ástandinu hér á landi með því að leggja göngustíga og trépalla, stækka bílastæði o.s.frv. En margoft hefur komið í ljós að það nægir ekki. Því hljóta menn að spyrja hvernig hægt sé að hafa stjórn á því sem hér hefur verið lýst? Verður ekki að hugsa málin upp á nýtt og finna lausnir sem níðast minna á náttúrunni? Hugsa þarf til framtíðar. Og þá er ekki verið að tala um ár eða tvö, ekki áratug, heldur áratugi. Náttúruminjar eða menningarminjar sem búið er að skemma með ágangi eða umróti eru varanlega skemmdar. Við hæfi er að spyrja hvað við getum lært af Bretum? Það sem við getum lært af þeim (og sjálfsagt fleirum) er að til þess að við getum haft einhverja stjórn á þessum málum megum við ekki beina allri umferð ferðamanna að risastórum bílastæðum rétt við náttúruminjarnar. Þetta á að vera í hæfilegri fjarlægð þar sem það fer vel í landslaginu og truflar ekki upplifunina af því sem ferðamenn eru komnir til að njóta. Frá þjónustumiðstöðinni yrði ferðamönnunum síðan ekið í fylgd leiðsögumanna í léttum vögnum að náttúruperlunni. Jafnvel mætti hugsa sér bílastæðin í t.d. 15 mínútna göngufæri. Þetta er ekki flókið en skilar árangri.

 

3) Umhverfisslysið mikla sem fyrirsjáanlegt er við Geysi:                 

Kynnt hafa verið drög að nýju aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Reikna má með að skipulagið verði formlega auglýst innan skamms. Bláskógabyggð er mjög stórt sveitarfélag þannig að lítið fer fyrir Geysissvæðinu á stóra aðalskipulagskortinu. Því er hætt við að breyting á skipulaginu á þessum stað fari fram hjá flestum.

Á myndinni er úrklippa úr aðalskipulagskortinu sem sýnir breytingar á vegakerfinu. Höfundur þessa pistils hefur tekið sér bessaleyfi og teiknað inn á myndina skýringar og breytt lit á tengiveginum svokallaða svo hann falli síður í skuggann, en þessi vegur er aðal skaðvaldurinn. Um þennan veg mun fara öll umferð frá nýrri legu Biskupstungnabrautar til og frá Geysi.

Þar sem núverandi umferð að Geysi liggur að miklu leyti að Gullfossi og síðan að miklu leyti aðra leið til baka, má reikna með að umferðaþunginn um tengiveginn verði nánast tvöfaldur þess sem nú er um Biskupstungnabraut, og lega þessara tveggja vega er þannig að samanlögð hávaðamengun frá þeim verður veruleg, svo ekki sé minnst á mikla sjónmengun.

Þessir tveir vegir munu skera Almenning, sem er númer 737 á náttúruminjaskrá, nánast alveg frá náttúruperlunum Geysi og Haukadal, en í dag mynda þessi svæði eina heild. Þar er þörf á tveim stórum ræsum yfir Almenningsá þar sem hún liðast fallega um Almening, auk tvöfaldrar brúar yfir Tungufljót.

Tengivegurinn er í raun skammtímalausn vegna þess að ferðamannafjöldinn getur átt eftir að aukast verulega sé horft til lengri tíma en til 2025 og bílastæðin á hótelsvæðinu munu þá miklu meira en yfirfyllast, en þau eru þegar nánast sprungin. Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir munu aftur á móti hafa mjög neikvæð og óafturkræf áhrif um alla framtíð. Forsendur vegaframkvæmdanna munu verða brostnar áður en vegurinn verður tekinn í notkun.

Kortið má sækja ásamt öðrum gögnum hér: www.sbf.is/auglysing-sem-birtist-17-mars-2016

 

4) Betri og skynsamlegri lausn á skipulaginu til frambúðar:

Svo vill til að mjög auðvelt er að leysa málið á einfaldari hátt en gert er ráð fyrir í tillögunni, og með nánast engum þeim neikvæðu áhrifum á náttúruna sem fram koma í skipulagstillögunni. Í rauninni mun álagið að nærumhverfi Geysis batna mikið, öngþveitið sem nú ríkir minnka verulega og auðvelt að koma við aðgangsstýringu þyki ástæða til.

Í stuttu máli þá gengur tillagan út á að nýta það vegakerfi sem fyrir er. Það yrði því óþarfi að skera í sundur umhverfi Geysis og stórskemma ásýnd náttúrunnar með stofnvegum og tengivegum, eins og gert er í tillögu þeirri sem nú er í vinnslu. Óþarfi er að skera land sem er á náttúruminjaskrá frá Geysi og Haukadalsskógi með tvöfaldri vegalagningu sem bera þarf samtals tvöfaldan til þrefaldan þann umferðarþunga sem kynntur var í upphafi greinarinnar. Óþarfi er að gera strax nýja tveggja akreina brú yfir Tungufljót enda mun umferðin þar snarminnka.

Í stórum dráttum er lausnin þessi:

 • Sett verði upp bílastæði og þjónustumiðstöð í nokkurri fjarlægð frá Geysi, t.d. nærri vegamótunum við Kjóastaði.
 • Aðkoma að bílastæðinu yrði um Flúðaveg / Einholtsveg, en ekki frá þjóðveginum sem liggur um hlaðið við Geysi.
 • Frá bílastæðinu yrði gestum ekið milli bílastæðisins við Gamla-Geysi og hinnar nýju þjónustumiðstöðvar. Frá litla bílastæðinu við Gamla-Geysi væri gengið um hverasvæðið.
 • Í stað þess að aka með ferðamenn að Geysi um Biskupstungnabraut eins og nú, væri að jafnaði ekið þangað eftir Bræðratunguvegi og síðan haldið áfram norður Einholtsveginn eða Flúðaveginn, en báðir þessir vegir lægju að nýja bílastæðinu og þjónustumiðstöðinni. Auðvitað færi einhver umferð áfram núverandi leið, en mun minni en í dag.
 • Ferðalangar sem koma frá Þingvöllum myndu stytta sér leið með því að aka Syðri-Reykjaveginn áleiðis að Reykholti og þaðan yfir á Bræðratunguveg.

Það má hugsa sér aðrar útfærslur, en þetta er dæmi um hugmynd til frambúðar.

A sjálfögðu tekur smá tíma að framkvæma svona breytingar, en raskið er mun minna en þyrfti til að útfæra þær breytingar sem nú er stefnt að. Náttúrunni yrði hlíft og vandamál sem farið hafa sívaxandi myndu ganga að miklu leyti til baka. Þessar breytingar yrðu einnig til mikillar hagsældar fyrir íbúa sveitarfélagsins og bæta samgöngur, án þess að leggja þurfi nýja vegi eða fara í dýrar framkvæmdir við brúargerð. Sívaxandi umferð um Kjalveg nyti góðs af. Mikill kostur er að þetta má útfæra í áföngum og byrja strax á því sem lítið kostar í peningum og fyrirhöfn.

 

5) Það sem gera má strax án mikils tilkostnaðar til að bæta ástandið við Geysi:     

Glöggt er gests augað segir máltækið. Það blasir við að á Geysissvæðinu má strax og með litlum tilkostnaði ráðast í einfaldar framkvæmdir sem myndu þegar í stað bæta verulega öryggi ferðamanna og jákvæða upplifun af heimsókninni.

Núverandi ástand er þannig, að á móts við gangbrautirnar yfir þjóðveginn aka hópferðabílar af stærstu gerð inn á bílastæðið fyrir framan anddyri hótelsins. Þar skapast mikil hætta. Þetta má laga nú þegar með því að færa akstursleiðina þannig að ekið sé inn á bílastæðin strax og komið er að þeim suðvestan við þjónustumiðstöðina. Bílastæðin eru öll samtengd þannig að auðvelt er að aka hópferðabílunum og smærri bílum bílum inn á stæðin á þessum stað. Aðgangi að bílastæðunum á móts við gangbrautirnar yrði lokað.

Fyrir framan þjónustumiðstöðina, beggja vegna við bensíndælurnar, er hópferðabílum oft lagt. Að sjálfsögðu á þarna að vera opið svæði, ekki síst vegna þeirrar starfsemi sem þarna er rekin. Þessi bílastæði valda allt of miklu öngþveiti meðal ferðamanna, auk þess sem þau draga úr heimsóknum í þjónustumiðstöðina, en þar eru seldar veitingar og minjagripir. Eldsneytisdælur með sjálfsala eiga ekki heima þétt fyrir framan aðalinnganginn að þjónustumiðstöðinni. Þær þarf að færa.

Yfir þjóðveginn liggja tvær gangbrautir. Önnur er vel merkt með zebra merkingu í veginum, en hin gangbrautin, sú sem er mest notuð, er nánast ómerkt. Þarna ætti Vegagerðin að setja nú þegar upp gangbrautarljós ásamt lágreistri girðingu á vegarbrún til að tryggja öryggi ferðamannanna. Þeir erlendu kunna að nota gangbrautarljós, kannski betur en Íslendingar. Gangbrautarljósin gætu verið umferðarstýrð, þannig að þegar umferð bifreiða er lítil er að jafnaði grænt ljós á móti gangandi umferð. Þessi einfalda aðgerð ásamt færslu aðkomu að bílastæðunum myndi þegar í stað bæta ástandið verulega meðan unnið væri að framtíðarlausn í anda þess sem lýst er hér að ofan.

 

6) Niðurlag:

Skógurinn í Haukadal, Geysir og Almenningur mynda órjúfanlega heild sem er ein fegursta náttúruperla Íslands. Það er því mikilvægt að náttúrunni verði ekki spillt með vanhugsuðum aðgerðum eins og hafa verið í tillögum að nýju aðalskipulagi Bláskógabyggðar.

Af miklum myndarskap hefur fjölskyldan að Geysi, afkomendur Sigurðar Greipssonar skólastjóra íþróttakólans, byggt upp myndarlega ferðaþjónustu. Þarna var vagga íslenskrar glímu undir dyggri stjórn Sigurðar. Því miður er mikil hætta á að eitt allsherjar bílastæði með örtröð og ónæði beri staðinn ofurliði í ójafnri glímu. Gríðarlegur umferðarþungi eftir tengivegi og stofnbraut með tilheyrandi hávaðamengun gæti dregið úr áhuga ferðamanna á að dvelja á staðnum, sem hefði neikvæð áhrif á rekstur ferðaþjónustunnar.

Vinur er sá er til vamms segir. Sá sem þessar línur ritar hefur verið staðkunnugur í Haukadal í marga áratugi og þykir vænt um vinafólk sitt á Geysi og náttúruna á þessu fagra landsvæði. Með nýrri hugsun er unnt að ná nánast sama markmiði, og gott betur, og ætlunin var með breyttu aðalskipulagi, en á mun vistvænni hátt og nánast án nokkurra inngripa í náttúruna.

Látum skynsemina ráða og hlífum náttúrunni! Forðumst óafturkræf spjöll sem koma að takmörkuðu gagni.  

 

Úrklippa úr korti sem fylgir tillögu að nýju Aðalskipulagu 2015-2027 fyrir Bláskógabyggð. Úrklippan sýnir landsvæðið umhverfis Geysi.

 

 

— — —

Ítarefni:

Af vefsíðunni www.sbf.is/auglysing-sem-birtist-17-mars-2016

Forsendur og umhverfisskýrsla
Greinargerð
Láglendisuppdráttur
Hálendisuppdráttur

 

Undarlegheit í Aðalskipulaginu:

 

Úr gildandi Aðalskipulagi 2000-2012. Svæðin tvö sem merkt eru með rauðu hafa gleymst í nýju tillögunni.

Úr gildandi Aðalskipulagi 2000-2012.
Svæðin tvö sem merkt eru með rauðu hafa gleymst í nýju tillögunni.

Á kortinu efst á síðunni má sjá hvernig tillaga að nýrri legu Biskupstungnabrautar liggur langsum eftir frístundasvæði sem merkt er með (1) á teikningunni. (Sjá hér). Þetta frístundasvæði, sem samþykkt var árið 2007, hefur gleymst að færa inn á skipulagstillöguna nýju. Því er rústað með Biskuðstungnabrautinni.

Í gildandi aðalskipulagi er röndótta svæðið sem umlukt er með rauðum lit ætlað fyrir uppbyggingu þjónustusvæðisins við Geysi, þ.e. blönduð notkun, m.a. íbúðarhús.  Þetta hefur gleymst í skipulagstillögunni nýju og tengivegurinn lagður þar þvert í gegn um mitt svæðið og skerðir verulega notagildi þess.

Takið eftir hvar norðurmörk lands númer 737 í Náttúruminjaskrá eru í gildandi Aðalskipulagi. Þetta land er hér merkt Haukadalur II og eru landsvæði í náttúruminjaskrá skástrikuð með svörtu. Þetta landsvæði nær þétt upp að frístundasvæðunum (fjólublátt) og að athafnasvæði hótelsins (marglitt). Landsvæði sem falla undir svokallaða hverfisvernd eru strikuð með hvítum línum.  Takið nú eftir hvernig þessi norðurmörk svæðis #737 á Náttúruminjaskrá hafa verið færð sunnar á myndinni sem er efst á síðunni, þ.e úrklippu úr tillögu að nýju Aðalskipulagi, að því er virðist til að rýma fyrir nýja vegastæðinu. (Hverfisvernduð svæði eru ekki lengur sýnd). Einhver hefur greinilega tekið sér Bessaleyfi hér, en það eru auðvitað ekki góð vinnubrögð.

 

Aðalskipulag 2000-2012 sem enn er í gildi.
Sjá neðsta skjalið á vefsíðu Skipulagsstofnunar:
http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/Display.aspx?countyno=8721

Undirritun Aðalskipulags 2000-2012

 

Aðalskipulag 2000-2012 er enn í gildi. Takið eftir hvernig Almenningur, sem er númer 737 á náttúruminjaskrá (skástrikaða svæðið), og frístundalandið Iðavellir skarast. Þetta er í samræmi við úrskurð Náttúruverndar ríkisins frá 14. september 2000 og 8. október 2001. Síðan hafa þessi mörk verið á flakki og verið færð töluvert sunnar til að rýma fyrir nýrri legu Biskupstungnabrautar, væntanlega bara sísona…

— — —

 

 

Bretar lentu í svipuðum vandræðum við Stonehenge og Íslendingar eru að lenda í við Geysi. Álagið var komið yfir þolmörk, þó svo að fjöldi ferðamanna væri helmingi minni en nú er á Gullna hringnum.  Þeir fluttu því bílastæðin og þjónustubyggingar í nokkurn spöl frá fornminjunum. Tekið í notkun árið 2013.  Sjá hér.

Ferðamannamiðstöðin er 2,5 km frá fornminjunum. Þar eru bílastæði og þjónusta, og þaðan er fólki ekið með léttum vögnum sem aka fram og aftur með skömmu millibili. Álagið á Stonehenge hefur snarminnkað..

Ferðamannamiðstöðin er 2,5 km frá fornminjunum. Þar eru bílastæði og þjónusta,
og þaðan er fólki ekið með léttum vögnum sem aka fram og aftur með skömmu millibili.
Álagið á Stonehenge hefur snarminnkað.

 

Stonehenge Visitors Centre er glæsilegur staður í 2,5 km fjarlægð frá fornminjunum. Þar eru bílastæðin og margvísleg þjónusta. Ferðamönnum er ekið þaðan í léttum vögnum. Staðurinn var tekinn í notkun árið 2013.

Stonehenge Visitors Centre er glæsilegur staður í 2,5 km fjarlægð frá fornminjunum.
Þar eru bílastæðin og margvísleg þjónusta. Ferðamönnum er ekið þaðan í léttum vögnum.
Staðurinn var tekinn í notkun árið 2013.

 

 

Grein sem birtist í blaðinu Samur Fóstri í desember 2016. Ritstjórn stytti upphaflegu greinina nokkuð og breytti áherslum aðeins svo og fyrirsögn.

Grein sem birtist í blaðinu Samur Fóstri í desember 2016.
Ritstjórn stytti upphaflegu greinina nokkuð og breytti áherslum aðeins svo og fyrirsögn.