Hafsvæði við Ísland hafa kólnað í einn og hálf­an ára­tug…

 

Morgunblaðið, laugardagur, 15. febrúar 2020
 
Eft­ir Friðrik Daní­els­son verkfræðing:

„Hafsvæði við Ísland hafa kólnað í einn og hálf­an ára­tug.“

 

Norður-Atlants­hafið sunn­an Íslands og Norður-Íshafið norðan Íslands hafa kólnað síðustu 16 árin. Á vef Haf­rann­sókna­stofn­un­ar eru sýnd­ar mæl­ing­ar sjáv­ar­hita við strönd 3 ) . Við Vest­manna­eyj­ar varð sum­ar­hita­há­markið einni gráðu lægra 2019 en 2003 og við strönd Gríms­eyj­ar einni og hálfri gráðu lægra. Sjá meðfylgj­andi línu­rit af sjáv­ar­hita við strönd.

 
Tvö hlý­inda­tíma­bil
 
Sjór­inn tók að hlýna eft­ir 1920 og hlý­ind­in orðin veru­leg milli 1930 og 1940 og ent­ust fram til 1965. Aft­ur kom hlý­skeið eft­ir 1995. Hita­mæl­ing­ar Haf­rann­sókna­stofn­un­ar á dýpi sunn­an Íslands og norðan, á Sel­vogs­banka og út af Siglu­nesi, sýna hlýn­un­ina (sjá mynd­ir 4 og 5 í til­vís­un 1 ) , mynd­irn­ar sýna hita­stig niður í sjó­inn að vori). Á seinna hlý­skeiðinu, eft­ir 1995, náðu hlý­ind­in há­marki á ár­un­um 2003-2006 á Sel­vogs­banka, fyr­ir norðan varð stutt hlý­inda­skot 2003. Eft­ir þessi hita­há­mörk hef­ur að mestu ríkt kóln­un á báðum svæðum, skörp eft­ir 2014 fyr­ir sunn­an, og síðustu árin hef­ur hitafarið í sjón­um á bæði Sel­vogs­banka og út af Siglu­nesi verið svipað og á kulda­skeiðinu 1965-1995
1 ) 2 ) .
 
Meiri hlý­indi fyr­ir 1965
 
Á mynd 5 í skýrslu Haf­rann­sókna­stofn­un­ar 1 ) eru sýnd­ir hita­ferl­ar á dýpi út af Siglu­nesi aft­ur til ár­anna um 1950. Þar sést að hlý­ind­in voru meiri og var­an­legri milli 1950 og 1965, á fyrra hlý­skeiðinu, en komið hafa á því síðara eft­ir 1995.
 
Botn­hit­inn lækk­ar
 
Í árs­fjórðungs­leg­um mæl­ing­um á botn­hita sjáv­ar á vor­in, sem sýnd­ar eru á mynd 6 í skýrslu Haf­rann­sókna­stofn­un­ar 1 ) , má greina hlýn­un eft­ir 1995. Á Sel­vogs­banka og út af Siglu­nesi og Látra­bjargi hætt­ir að hlýna á ár­un­um 2003-2008 og hefst þá kóln­un­ar­til­hneig­ing sem var­ir eins lengi og mynd­in sýn­ir (fram til 2016).
 
Haf­straum­ar jafna hit­ann
 
Rennsli Golf­straums­ins er meira en allra áa jarðar til sam­ans, yfir 100 millj­ón tonn á sek­úndu. Með hon­um kem­ur hlýr sjór norður í efri lög­um en kald­ur sjór renn­ur úr ís­haf­inu í neðri lög­um til suðurs. Hitam­is­mun­ur leit­ast við að jafn­ast út um N-Atlants­hafið með blönd­un. Hit­inn í haf­inu sunn­an Íslands gef­ur vís­bend­ingu um þróun hitafars í meg­in­svæði N-Atlants­hafs­ins.
 
Sama þróun lofts­lags
 
Hit­inn í haf­inu er einn helsti áhrifa­vald­ur loft­hita kringliggj­andi landsvæða. Loft­hita­mæl­ing­ar 4 ) á Stór­höfða, sjá meðfylgj­andi línu­rit yfir ársmeðal­hita­stig, sýna svipaða þróun og í haf­inu: Hlýn­un 1920-1940 og aft­ur 1980-2003. Fleiri mæl­istaðir loft­hita nærri meg­in­svæði N-Atlants­hafs­ins, s.s. við Kefla­vík­ur­flug­völl og Kirkju­bæj­arklaust­ur, sýna svipaða kóln­un­ar­til­hneig­ingu og hafið síðasta einn og hálf­an ára­tug.
 
Þekkt­ar af­leiðing­ar kóln­un­ar
 
Sam­drátt­ur í fiskafla og vanda­mál í land­búnaði eru þekkt­ar af­leiðing­ar kóln­un­ar hér á landi.
Til­vís­an­ir:
 
1) Ástand sjáv­ar 2016 (skýrsla):
 
Sól­veig R. Ólafs­dótt­ir, Héðinn Valdi­mars­son, Maria Dol­or­es Perez- Hern­and­ez, Krist­inn Guðmunds­son, Ástþór Gísla­son, Hild­ur Pét­urs­dótt­ir, Haf­steinn G. Guðfinn­son, Krist­ín J. Vals­dótt­ir, Agnes Ey­dal og Karl Gunn­ars­son. Haf­rann­sókna­stofn­un 2018.
 
2) Ástand sjáv­ar, tím­araðir. Haf­rann­sókna­stofn­un.
 
3) Sjáv­ar­hiti við strönd. Haf­rann­sókna­stofn­un.
 
4) Árs­gildi. Stór­höfði 63°23.974′, 20°17.295′ (63,3996, 20,2882). Veður­stofa Íslands.