Prófessor Richard Lindzen loftslagsfræðingur og samfélagsvandamálið mikla…

Í hinu gamla riti Konungs skuggsjá – Speculum Regale stendur skrifað:

„En annar hlutur er forvitni, því að það er mannsins náttúra  að forvitna og sjá þá hluti, er honum eru sagðir, og vita, hvort svo er,  sem honum var sagt, eða eigi“.

Látum þessi orð vera okkar leiðarljós þegar við lesum eftirfarandi.

(Video frá fyrirlestri Dr. Richard Lindzen er hér fyrir neðan greinina).

Richard Lindzen

Maður er nefndur Richard S. Lindzen. Hann er Prófessor Emeritus í loftslagsfræðum við hinn virta tækniháskóla  MIT – Massachusetts Institute of Technology (www.mit.edu), en það er líklega sá tækniháskóli sem nýtur mestrar virðingar og er þekktastur. Sama má segja um Richard Lindzen, fáir standa honum framar í þessum fræðum.  Hann hefur ritað yfir 200 fræðigreinar og bækur og var aðalhöfundur kafla 7 “Physical Climate Processes and Feedbacks,” í þriðju skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna, IPCC, árið 2001.   Sjá meira um Lindzen  á Wikipedia (https://en.wikipedia.org/wiki/Richard_Lindzen).

Í október síðastliðnum hélt Dr. Richard Lindzen fyrirlestur í London á vegum Global Warming Policy Foundation: „Global Warming for the Two Cultures“, sem útleggja má sem „Hnatthlýnun fyrir hina tvo menningarheima“.  Hér verður aðeins stiklað á mjög stóru og helstu atriði fyrirlestursins kynnt, en lesandanum er eindregið ráðlagt að lesa hann á netinu eða horfa á upptöku af honum. Líklega er best að byrja á að skima textann hratt til að sjá skóginn fyrir trjánum, en hlusta síðan. Dr. Lindzen er einstaklega skýrmæltur og auðvelt að skilja hvað hann segir, enda hefur hann kennt sín fræði í áratugi.

Þessi fyrirlestur prófessorsins fjallar fyrst og fremst um það samfélagsvandamál, að þjóðfélagshópar geta ekki rætt saman um loftslagsmálin. Kaflinn „Loftslagskerfin“ hér fyrir neðan er fyrst og fremst til útskýringar.   Þetta er nauðynlegt að hafa í huga við lesturinn til að átta sig á samhenginu.

Lindzen byrjaði í inngangi fyrirlestursins á að rifja upp, að fyrir rúmlega hálfri öld skoðaði efnafræðingurinn og skáldsagnahöfundurinn C.P. Snow áhrif tveggja menningarheima, raunvísinda og hugvísinda, á samfélagið. Hann viðraði skoðanir sínar í fyrirlestri sem hann nefndi „The Two Cultures and the Scientific Revolution“.  Í fyrirlestrinnum taldi C.P. Snow vera að opnast gjá í samskiptum milli tveggja menningarheima í nútíma þjóðfélagi, þ.e. milli þeirra sem eru menntaðir í raunvísindum og þeirra sem eru menntaðir í hugvísindum. Þessi klofningur væri meiriháttar hindrun við lausnir á vandamálum heimsins. C.P. Snow hélt því einnig fram að menntun í heiminum færi almennt versnandi.

C.P. Snow skrifaði:

„Oft hef ég verið staddur þar sem fólk, sem að öllu jöfnu er talið vera vel menntað, hefur safnast saman og með nokkrum hroka talað niður til vísindamanna, talið þá ótrúverðuga og ólæsa. Einu sinni eða tvisvar hef ég spurt mannskapinn hve margir þeirra þekktu “Annað lögmál varmafræðinnar“.  Svörin voru köld og einnig neikvæð. Samt var ég að spyrja spurningar sem er í raun jafn einföld og að spyrja „Hefur þú lesið verk Shakespears?“.

Ég tel, að ef ég hefði spurt mun einfaldari spurningar, svo sem: „Hvað er átt við  með massa eða hröðun“, en það mætti jafna þeirri vísindalegu spurningu við að spurt væri: „Ertu læs?“.  Aðeins einn af tíu þessara hámenntuðu manna og kvenna hefði talið að ég væri að tala sama mál og þau. Þannig má segja að eftir því sem hin mikla þekking sérfræðinga á raunvísindum eykst, situr vel menntaður almenningur eftir með ekki meiri innsýn í vísindin en forfeður okkar á steinöld hefðu haft“.

Lindzen heldur áfram:

„Ég er hræddur um að lítið hafi breyst síðan Snow mat ástandið fyrir 60 árum.  Þó svo sumir gætu haldið því fram, að fáfræði á sviði vísinda hafi ekki áhrif á stjórnmálalega getu, þá er vissulega ljóst að vanþekking í vísindum hefur áhrif á getu stjórnmálamanna að fást við málefni sem byggð eru á vísindum. Þessi gjá í skilningi á vísindum getur jafnvel leitt til illgirni í málflutningi.  Í ljósi þess að þar sem lýðræði ríkir og margir, sem ekki hafa þekkingu á vísindum, þurfa að taka afstöðu til vísindalegra vandamála, er hætt við að trú komi óhjákvæmilega í stað skilnings. Allt of einfaldaðar og jafnvel rangar fullyrðingar gera það að verkum að þeir sem ekki hafa skilning á vísindum telja að að þeir hafi vit á vísindum. Í málum tengdum hnatthlýnun eru mörg dæmi um þetta.

Ég vildi gjarnan byrja fyrirlestrinn á því að gera tilraun til að gera vísindamönnum meðal áheyrenda grein fyrir raunverulegu eðli  loftslagskerfisins, og einnig hjálpa þeim sem ekki eru vísindamenn meðal áheyrenda  og gætu tilheyrt þeim hópi sem Snow flokkaði í „einn af tíu“,  að losna við ofureinfaldaðan skilning á málinu“.

Eftir þennan inngang snýr Dr. Richard Lindzen sér að sjálfum fyrirlestrinum, sem hann skiptir í fimm hluta:  „Loftslagskerfin“, „Hin einfalda útskýring og pólitískur uppruni hennar“, „Hvað um vísindamenn?“, „Sönnunargögnin“ og „Niðurstöður“. Hér er ekki möguleiki, plássins vegna, að birta allan fyriresturinn, en lesendur eru hvattir til að hlusta á hann á netinu. Byrja á að skima hratt útprentuðu útgáfuna til að fá yfirsýn, og síðan hlusta á sjálfan fyrirlesturinn á YouTube.  Richard Lindzen er einstaklega skýrmæltur og því auðvelt að fylgjast með og njóta þess sem þessi mikli reynslubolti hefur fram að færa.

Hér á eftir er aðeins örstutt lýsing á því hvað hinir fimm hlutar fyrirlestursins fjalla um:

 

Kaflinn: „Loftslagskerfin – The climate system“
Í þessum tiltölulega langa kafla  lýsir prófessor Lindzen því hve einstaklega flókin loftslags- og veðrakerfin eru. Tilgangurinn er að gera mönnum ljóst, að hin almenna skýring á hlýnun lofthjúpsins af völdum koltvísyrings er allt of mikil einföldun. Málið sé miklu flóknara en það.

Hann fjallar meðal annars um það að loftslagskerfin samanstanda af ólgukenndu (turbulent) hafinu sem er í snertingu við ólgukenndan lofthjúpinn. Þessi kerfi eru á reikistjörnu sem snýst í sífellu og er böðuð í sólarljósi sem skín ójafnt á yfirborð jarðar, mest nærri miðbaug en minnst næri pólunum. Sífelldur flutningur á varma og raka á sér stað milli þessara síkviku kerfa.

Í hafinu eru straumar og sveiflur sem ná yfir tímabil sem mælast frá árum til árþúsunda. Hafið hefur áhrif á lofthjúpinn og öfugt. Yfirborð jarðar er mjög óreglulegt og mótar það vindakerfin.  Rakinn í lofthjúpnum hefur gríðarlega mikil áhrif og er aðal áhrifavaldurinn sé litið til hlýnunar af völdum svokallaðra gróðurhúsaáhrifa. Jafnvel inngeislun sólar er sveiflukennd.

Mörgum kann að finnast þessi hluti fyrirlestursins of flókinn til að hafa gagn af. Í YouTube útgáfunni gefur Lindzen sér þó oft tíma til að útskýra málin á auðskilinn hátt, en öllum má vera ljóst eftir að hafa hlýtt á þennan kafla, að útskýringin á að hlýnun lofthjúpsins undanfarna áratugi stafi að mestu af aukningu koltvísýrings úr 0,03% í 0,04% sé allt of mikil einföldun, og til þess fallin að rugla fólk í ríminu.

Kaflinn: „Hin vinsæla útskýring og pólitískur uppruni hennar – The popular narrative and its political origins“
Í þessum kafla fjallar prófessorinn um það hvernig stóð á því að hin einfalda útskýring á loftslagsbreytingum fór á kreik.  Hið undarlega gerðist, að margir töldu sjálfum sér og öðrum trú um að örlítil breyting á styrk koltvísýringsins, CO2, hefði miklu meiri áhrif á loftslags- og veðrakerfin, en hinir fjölmörgu og öflugu þættir sem Lindzen hafði  lýst í kaflanum á undan.

Kaflinn: „Hvað um vísindamenn? – What about the scientists?“
Vísindamenn eru sérfræðingar og fæstir þeirra sérfræðingar í loftslagsmálum. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að þeir hafi sér sér leik á borði og farið að sækja í hina gríðarstóru sjóði sem stofnaðir hafa verið til að styrkja þennan eina þátt, CO2, í ofurflóknu kerfi sem fæstir skilja…

Kaflinn: „Sönnunargögnin – The evidence“
Í þessum kafla fjallar Richard Lindzen í stuttu máli um öll þau “sönnunargögn” sem við verðum nokkuð reglulega vör við að minnst sé á í fréttum. Sveltandi ísbirnir, óveður, minnkandi hafís, stríðið í Sýrlandi, hækkun sjávarborðs, ásamt fjölmörgu öðru. Hann fjallar um skilningsleysi hvað varðar muninn á veðri og loftslagi. Hann fjallar um þá staðreynd að hækkun lofthita frá Litlu Ísöldinni svokölluðu nemur ekki meira en 1°C.  Hann minnist á að þessi hækkun hitastigs sem mælst hefur, og menn séu nokkuð sammála um, sé minni en tölvulíkön IPCC hafa spáð. Hvers vegna er haldið á lofti svo miklum hræðsluáróðri sem raun ber vitni? Hvað var annars svona jákvætt við loftslagið meðan á Litlu Ísöldinni stóð og lofthjúpurinn var um 1° kaldari að meðaltali? Hafís, hungur, uppskerubrestir, fátækt, farsóttir …? Hafa menn gleymt sögunni?

Kaflinn: „Niðurstöður – Conclusion“

Orðrétt og snarað á íslensku skrifar prófessor Lindzen:

„Jæja, þarna hafið þið það. Óviðeigandi ágiskanir grundaðar á  fölskum sönnunargögnum og endurteknar í sífellu hafa orðið pólitískt rétt þekking og er notað til að stuðla að viðsnúningi iðnaðar-menningar okkar. Það sem við munum skila til barnabarna okkar er ekki jörð  skemmd af framvindu iðnaðar, heldur listi yfir óbætanlegan kjánaskap sem og landslag sem er niðurbrotið með ryðguðum vindmyllum og hrörnandi sólarselllum. Falskar fullyrðingar um 97% samdóma álit munu ekki frelsa okkur, en vilji vísindamanna að til að þegja er líklegur til að draga úr trausti og stuðningi við vísindin. Kannski mun þetta ekki vera svo slæmt eftir allt – vissulega hvað varðar hin „opinberu“ vísindi.

Það er að minnsta kosti einn jákvæður þáttur við núverandi aðstæður. Ekkert af fyrirhugaðri stefnu mun hafa mikil áhrif á gróðurhúsalofttegundir. Þannig munum við halda áfram að njóta góðs af því eina sem greinilega má rekja til hækkunar koltvísýrings; nefnilega virku hlutverki hans sem áburður fyrir gróður, og hans áhrif á gróður til að þola betur þurrka. Á meðan er IPCC að halda því fram að við þurfum að koma í veg fyrir viðbótar 0,5◦C hlýnun, þótt 1◦C hlýnun sem hefur átt sér stað hingað til hefur verið samfara mestu aukningu í velferð manna í sögunni“.

 

Þetta er eina myndin sem Richard Lindzen birti með fyrirlestri sínum. Hann sagði eitthvað á þessa leið um myndina: „Ef eitthvað á að vera sönnunargagn, þá þarf því að hafa verið ótvírætt spáð. (Þetta er neuðsynlegt, en fjarri því að vera nægjanlegt). Myndin sýnir niðurstöður spálíkana IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmál) varðandi lágmark hafíss á norðurhveli að sumri til árið 2100 miðað við tímabilið 1980-2000. Eins og þú sérð, þá eru sviðsmyndir fyrir hverja hugsanlega niðurstöðu. Þetta er ekki ólíkt því að vera frábær skytta: Skjóta fyrst og skilgreina síðan staðinn sem þú hittir sem skotmarkið“.

 

 — — —

Lesendur eru hvattir til að hlusta á allan fyrirlesturinn sem hinn mikli reynslubolti í loftslagsfræðum, prófessor emeritus Dr. Richard S. Lindzen hélt í Lundúnum 8. október síðastliðinn. Slóðin að fyrirlestrinum, bæði texti og vídeó, er hér:

Fyrirlesturinn sem pdf skjal:
www.thegwpf.org/content/uploads/2018/10/Lindzen-2018-GWPF-Lecture.pdf

Fyrirlesturinn á YouTube:
www.youtube.com/watch?v=X2q9BT2LIUA

 

 
 
 

=== === ===

 

Ítarefni:

 

Loftslagskerfið er gríðarlega flókið samspil margra þátta. Styrkur koltvísýrings er einn þessara þátta, en lítill í samanburði við aðra.   Þessi mynd gæti vel áttvið kaflann „Loftslagskerfin – The climate system“ hér að ofan.

 

Litla ísöldin svokallaða stóð yfir frá því um 1300 til um 1900. Síðan hefur hlýnað um 1 gráðu á Celcíus og þykir mörgum það ógnvænleg hækkun og hræðast tilhugsunina um að hlýnunin geti orðið meiri á næstu áratugum, jafnvel 1,5 gráður miðað við síðustu áratugi Litlu ísaldar. Þeir eru þó ekki margir sem vildu hverfa aftur til veðurfarsins sem ríkti áður fyrr öldum saman. Og þó, ekki er annað að skilja á umræðunni þessa dagana.

 

Hitafar síðustu 4000 ára hefur sveiflast upp og niður samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið með því að bora djúpt í Grænlandsjökul og rannsaka breytingar á samsætum súrefnis. Við erum nú stödd þar sem ferilinn ber hæst lengst til hægri. Hlýindin fyrir árþúsundi þegar landnám Íslands stóð sem hæst leyna sér ekki. Við ferilinn hafa verið merkt inn ýmis tímabil í sögu mannkyns og er áhugavert að bera þau saman við loftslagsbreytingar.

 

Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Tímaskalinn nær allt til loka síðustu ísaldar fyrir um 11.000 árum. Skýringar eru við lóðréttu ásana vinstra megin og hægra megin. Skammvinn hlýskeið eru sýnd með grænu. Blái ferillinn nær af mælitæknilegum ástæðum aðeins til ársins 1854, en hefur verið mjög lauslega framlengdur til dagsins í dag með strikuðu línunni lengst til hægri. Það blasir við að oft hefur verið hlýrra en í dag. Hvers vegna?

 

Hitaferlar frá þrem stofnunum sýna hér breytigar á hitastigi lofthjúpsins frá árinu 1850. Greinilegt er að skipta má ferlinum í því sem næst í nokkur tímabil: 1) Síðustu áratugir Litlu ísaldar frá 1850 til 1910. 2) stígandi frá u.þ.b. 1920 til 1950. 3) Kyrrstaða frá 1960 til 1980. 4) Stígandi frá 1980 til 2000. 5) Kyrrstaða frá 2000 fram undir 2015. Toppurinn lengst til hægri stafar af öflugu veðurfyrirbæri í Kyrrahafinu, El Nino, sem nú er gengið yfir. Sú hækkun hitastigs sem margir hafa áhyggjur af miðast við árin krngum 1860, en eins og sjá má nemur sú hækkun um 1 gráðu Celcíus, og tæplega það.
Hvaða tímabil getum við litið á sem kjörhita? Er það Litla ísöldin, árin um 1960 eða í dag?

 

Hitaferillinn nær alla leið aftur til 1750. Eins og sjá má, þá hafa gríðarmiklar hitasveiflur orðið “af sálfu sér”. Um aldamótin 1900 fór hitinn að hækka og jörðin að rífa síg úr viðjum hins langvarandi kuldaskeiðs sem kallað hefur verið Litla ísöldin.

 

 

Mynd 3: Meðan á litlu ísöldinni stóð var áin Thames við London oft ísi lögð. Málverkið er eftir Abraham Hondius (1630-1695). Museum of London. Fleiri myndir af "Frost Fairs" á Thames eru til. Horft er niður eftir ánni í átt að gömlu Lundúnarbrúnni. Lengst til hægri handan brúarinnar er Southwark Cathedral, og þar til vinstri sést í turn St. Olave's Church.

Meðan á litlu ísöldinni stóð var áin Thames við London oft ísi lögð.
Málverkið er eftir Abraham Hondius (1630-1695). Museum of London. Fleiri myndir af “Frost Fairs” á Thames eru til.
Horft er niður eftir ánni í átt að gömlu Lundúnarbrúnni. Lengst til hægri handan brúarinnar er Southwark Cathedral, og þar til vinstri sést í turn St. Olave’s Church.

 

 

Hitamælingar á lofthjúpi jarðar hafa verið gerðar með gervihnötum frá árinu 1979. Ferillinn sýnir frávik frá meðalhita áranna frá 1979 til september 2021. Háu topparnir árin 1998 og 2016 stafa af veðurfyrirbærinu El Nino í Kyrrahafinu. 

 

 

 

Vefsíðan:  Loftslagsbreytingar af völdum manna eða náttúru, eða kannski hvort tveggja?
http://www.agust.net/wordpress/2015/12/12/loftslagsbreytingar-af-voldum-manna-eda-natturu-eda-kannski-hvoru-tveggja/