Ferðalag um slóðir Auðar djúpúðgu með Vilborgu Davíðsdóttur 2021…

 

(Gert að mestu daginn eftir að heim var komið eftir reisuna miklu um Skotland og Orkneyjar  Þetta eru frumdrög og á væntanlega eftir að lagfæra klaufa- og kjánavillur.  Kannski bæta einhverju við.   Þetta er fyrst og fremst einhvers konar óformleg glósubók, sem ekki veitti af, því ferðin var svo yfirgripsmikil og upplýsingaflóðið svo gríðarlegt, að stundum rann allt saman í einn alsherjar hrærigraut).


Kortið efst á síðunni er fengið að láni á vef Vilborgar Davíðsdóttur.


 

Þessir minnispunktar eru fyrst og fremst ætlaðir fjölskyldu minni og vinum, og því á dálítið persónulegum nótum.



Minnispunktar: Ferðalag um Skotland og Orkneyjar 2. – 10. september 2021

 

Fararstjórar: Vilborg Davíðsdóttir & Snorri Guðmundsson
Aðstoðarfararstjóri:
Inga Geirsdóttir

 

Úr kynningu á ferðinni:
Þríleikur Vilborgar Davíðsdóttur um landnámskonuna Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, (Auður, Vígroði og Blóðug jörð), hefur notið fádæma vinsælda og hlotið einróma lof lesenda sem gagnrýnenda. Bækurnar segja frá uppvexti Auðar á Suðureyjum, stormasömu hjónabandi þeirra Dyflinnarkonungs, átökum norrænna manna á Bretlandseyjum og að endingu siglingunni frá Katanesi og yfir hafið til landnáms á Íslandi með viðkomu í Orkneyjum og Færeyjum”.

“Í þessari sögu- rútu- og ferjuferð gefst einstakt tækifæri á að ferðast um söguslóðir bókanna á Skotlandi í fylgd Vilborgar auk þess sem við kynnum okkur stórbrotna sögu hálanda Skotlands og 5.000 ára sögu Orkneyja. Ekið verður um fegurstu svæði Skotlands og siglt til Mull, Iona og Orkneyja”.

 

Samkvæmt Wikipedia:
Auður djúpúðga Ketilsdóttir
 var landnámskona í Dölum og ættmóðir Laxdæla. Samkvæmt Eyrbyggju nam hún „öll Dalalönd í Breiðafirði, í milli Skraumuhlaupsár og Dögurðarár, og bjó í Hvammi“.

Auður var dóttir Ketils flatnefs sem var hersir í Noregi en hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar. Móðir Auðar var Yngveldur, dóttir Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Bræður hennar voru þeir Björn austræni og Helgi bjóla og systur hennar Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka. Eiginmaður hennar hét Óleifur (Ólafur) hvíti, eða eins og segir í upphafi Eiríks sögu rauða:

Gæsalappir

Óleifur hét herkonungur er kallaður var Óleifur hvíti. Hann var son Ingjalds konungs Helgasonar, Ólafssonar, Guðröðarsonar, Hálfdanarsonar hvítbeins Upplendingakonungs. Óleifur herjaði í vesturvíking og vann Dyflinni á Írlandi og Dyflinnarskíri og gerðist konungur yfir.

Gæsalappir

 
— Upphaf Eiríks sögu rauða

Þorsteinn rauður var eini sonur Ólafs og Auðar. Hann var í Suðureyjum með móður sinni eftir að faðir hans féll og giftist þar Þuríði dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga magra. Hann herjaði á Skotland og varð vel ágengt, svo vel að hann gerðist konungur Skota, en þeir gerðu uppreisn gegn honum og felldu hann á Katanesi. Faðir Auðar var þá látinn og bjóst hún ekki við að fá neina uppreisn eða bætur fyrir son sinn. Nánustu ættmenn Auðar voru þá flestir fyrir vestan haf en um 886 fór Björn bróðir hennar til Íslands, litlu síðar Helgi bróðir hennar og svo Þórunn hyrna systir hennar og Helgi magri mágur hennar.

Auður lét að sögn Laxdælu gera knörr á laun úti í skógi en þegar skipið var fullbúið hélt hún af stað til Íslands með fríðu föruneyti, tengdadóttur sinni og börnum hennar, öðru frændliði og fólki; í Landnámu segir að á skipi hennar hafi verið tuttugu frjálsbornir karlmenn. „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna,“ segir í Laxdælu.

Mestur virðingarmaður af fylgdarmönnum Auðar var Kollur, sem seinna nefndist Dala-Kollur. Þau sigldu fyrst til Orkneyja og stóðu þar við einhvern tíma. Þar segir Laxdæla að Auður hafi gift Gró sonardóttur sína, dóttur Þorsteins, og var dóttir hennar Grélöð, kona Þorfinns jarls Torf-Einarssonar Rögnvaldssonar Mærajarls, og voru Orkneyjajarlar frá þeim komnir. Síðan hélt Auður til Færeyja og staðnæmdist þar einnig um tíma. Þar gifti hún Ólöfu dóttur Þorsteins og frá henni komu Götuskeggjar, ein ágætasta ætt í Færeyjum.

Þegar til Íslands kom braut Auður skip sitt á Víkarsskeiði við Ölfusá, en fólk bjargaðist. Hún hélt þá til Helga bróður síns á Kjalarnesi og hann bauð henni að vera um veturinn með helming liðs síns en það þótti henni ekki nógu stórmannlega boðið. Hún hélt þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns og hann bauð henni að vera með allt sitt lið. Það þáði hún en um vorið hélt hún inn í botn fjarðarins og nam Dalalönd öll kringum Hvammsfjörð, frá Skraumudalsá að sunnan til Dögurðarár að norðan og valdi sér bústað í Hvammi. Hún gaf nokkrum skipverjum sínum, frjálsbornum og leysingjum, lönd í landnámi sínu.

Þegar Auður var orðin ellimóð hélt hún mikla veislu í Hvammi og gifti um leið Ólaf feilan, sonarson sinn, Álfdísi barreysku. Þar gaf hún Ólafi bústað sinn og eignir og öðrum vinum sínum góðar gjafir og réð þeim heilræði og sagði að veislan skyldi standa í þrjá daga og vera erfidrykkja sín. Hún dó svo og var grafin í flæðarmáli eins og hún hafði sjálf mælt fyrir, því að hún var skírð og vildi ekki liggja í óvígðri mold, en engin kirkja var á landinu og sjálfsagt enginn prestur. Eftir dauða hennar spilltist trú ættmenna hennar og þeir urðu heiðnir.
(Textinn er fenginn að láni hér).

 


Svo vill til að langamma þess er þessar línur ritar var frá Hvammi í Dölum og er saga hennar einnig á margan hátt merkileg, þó á annan hátt sé en saga Auðar.  Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir hét hún og var dóttir Þorleifs Jónssonar prófasts í Hvammi. Jóhanna fæddist 1834 og lést 1896. Maður hennar var Hákon Bjarnason kaupmaður á Bíldudal.  Hákon rak þar þróttmikla verslun og þilskipaútgerð. Þótti hann dugnaðar- og atorkumaður hinn mesti,  Hákon féll frá á besta aldri, aðeins 49 ára. Vöruskip, sem hann kom með frá Kaupmannahöfn, strandaði á Mýrdalssandi í „páskaveðrinu mikla“ 1877 og fórst hann ásamt öllum þeim sem á skipinu voru. Ekkja Hákonar rak útgerðina og verslunina í nokkur ár eftir þetta. Hún stóð nú uppi sem 43 ára ekkja með 5 börn, en gaf þeim það sem hún taldi dýrmætast, það er góða menntun. Auður djúpúga gaf einnig vinum sínum dýrmætar gjarfir. Jóhanna og Auður tengjast báðar jörðinni Hvammi í Dölum. Börn Jóhönnu og Hákonar voru 12 talsins, en sjö dóu í æsku. Hin fimm urðu þjóðkunn og tóku upp ættarnafnið Bjarnason. Voru það  dr. Ágúst H. Bjarnason, prófessor í heimspekiLárus H. Bjarnason hæstaréttardómari og alþm., Brynjólfur H. Bjarnason kaupmaður, Ingibjörg H. Bjarnason Kvennaskólastýra og alþingismaður og Þorleifur H. Bjarnason yfirkennari.

Milli Auðar djúpúðgu og Jóhönnu Kristínar voru um 1000 ár. Báðar áttu þær heima á Hvammi í Dölum. Báðar voru dugnaðarforkar. Önnur tengsl voru ekki svo ég viti.  . . .  Jæja, Auður var ættmóðir Laxdæla, en Jóhanna ættmóðir MacBjarna klansins 🙂

 

Það var ekki bara langamma blekbóndans sem tengir hann við ferðalag Auðar, heldur átti hann sem starfsmaður Verkís smá þátt í smíði flöskuskeytis úttbúið með GPS og gervihnattasendi sem hent var úr þyrlu í sjóinn við Reykjanes árið 2016 og rak sem rótlaust þangið 15.000 kílómetra vegalengd uns það stöðvaðist ári síðar í fjörunni við bæjardyr Ketils flatnefs, föður Auðar, á eyjunni Tiree eða Tyrvíst. Áður haftði það tekið stefnuna á Grænland og siglt nærri byggð Eiríks Rauða, tók stefnuna á Vínland og síðan þráðbeint yfir hafið að eyju Ketils flatnefs. Þetta var þvert á allar spár og útreikninga sérfræðinga sem sögðu að flöskuskeytið ætti að stefna stystu leið frá Íslandi að Noregi,   Voru guðir hafs og vinda að segja okkur eitthvað? Kannski, og kannski ekki. Árið 2019 var hátækni flöskuskeyti frá Verkís hent aftur í sjóinn. Nú frá varðskipi. Aðeins 207 dögum og 6.700 kílómetrum síðar rak það einnig á fjöruna í Tyrvíst (Tiree).  Tilviljun?  Það má stundum leyfa sér að dreyma…

Auðvitað er saga Auðar hinnar djúpúðgu slitrótt í sögulegum heimildum. Úr því hefur Vilborg Davíðsdótttir bætt svo um munar og fyllt í eyðurnar á mjög sannfærandi hátt, svo sannfærandi að Auður verður sem fjölskylduvinur.   Er leyfilegt að láta sig dreyma og skálda það sem á vantar?   Haft er eftir meistara Einstein: “Imagination is more important than knowledge. Knowledge is limited. Imagination encircles the world.”  Við köllum það skáldaleyfi.

Ferðalagið um söguslóðir Auðar djúpúðgu var stórkostlegt.  Það var einstaklega fróðlegt, náttúran einstök og margt sem minnti á Ísland. Kastalar og fornar minjar eru  víða. Jafnvel frá steinöld. Fararstjórnin var frábær og hópurinn sem ein fjölskylda með sama markmið; að finna rætur okkar, en samkvæmt nýjustu erfðafræðirannsóknum hafa yfir 60% landnámskvenna verið frá þessum slóðum. Á ferðalaginu í rútubíl okkar var stundum erfitt að halda sér vakandi, enda víða farið. Augun áttu til að lokast meðan dottað var og skroppið  í draumaheima. Væntnlega var þá farið augnablik í veröld Auðar. Þannig var ferðin eitt allsherjar tímaflakk. Ímyndun og raunveruleiki runnu saman í eitt.  Fléttu launheima og raunheima.  – Gerist ekki betra!


Til að sækja mynd í meiri upplausn:  Hægrismella og velja “Open image in a new tab”.

Litla Íslandskortið sem fellt er inn í myndina er frá 1662, eða um 800 árum eftir að Auður nam land. Hvaða hugmyndir ætli hún hafi haft um lögun landsins?


Fyrsti dagur: Ísland – Glasgow – Oban

 

Fimmtudagur 02.09.21
Flug FI430 til Glasgow. Brottför 07:35, lending 10:50.

Ekið var (30 mín) til Dumbarton kastala (Bretavirkis / Dún Bretann). Stoppuðum við kastalann (20 mín). Frá kastalanum var ekið (20 mín) til Balloch þar sem boðið var upp á hádegisverð á Tullie Inn. Síðan var ekið (2 klst) til Oban á vesturströndinni en þar var gist næstu 2 nætur.

Gististaður: Royal Hotel Oban, Argyll Square, Oban PA34 4BE
Kvöldverður á hótelinu kl 19:30.

 

Annar dagur: Oban – Iona – Oban

Föstudagur 03.09.21
Morgunverður kl 7:30.

Kl. 9:00 var farið niður að ferjubryggjunni í Oban. Siglt (45 mínútur) til Craignure á eyjunni Mull (Mýli). Þaðan var ekið (1 klst.) til Fionnphort þar sem tokum bát sem sigldi með okkur yfir lítið sund til Iona, eyjarinnar helgu. Þar skoðuðum við hið fræga munkaklaustur sem heilagur Columba setti á stofn 563 og Ketill flatnefur rændi á 9. öld, eins og sagt er frá í bókinni Auði. Siglt til Fionnphort og ekið til baka til Craignure. Kl. 17:10 var síðan siglt til Oban.

Gististaður: Royal Hotel Oban, Argyll Square, Oban PA34 4BE
Kvöldverður á hótelinu kl. 19:45.

 

Þriðji dagur: Oban – Glen Coe – Glenfinnan – Fort William

Laugardagur 04.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Kl. 9:00 var ekið (1 klst) norður á bóginn til Glen Coe. Þar var stutt myndastopp. Síðan var ekið (1 klst) til Glenfinnan þar sem við kynntum okkur sögu Bonnie Prince Charlie, sem leiddi uppreisnartilraun Jakobíta 1745. Loks var ekið (30 mín) til Fort William sem er við rætur Ben Nevis, hæsta fjalls Bretlandseyja. Síðan tók við frjáls tími í Fort William.

Gististaður: Alexandra Hotel, Parade, Fort William PH33 6AZ
Kvöldverður á hótelinu kl 19:30

 

Fjórði dagur: Fort William – Loch Ness/Urquhart – Bourghead – Tain

Sunnudagur 05.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Kl. 9:30 var ekið (1 klst 45 mín) norður eftir Great Glen (,,Vatnaleiðin mikla“) til Loch Ness þar sem við  skoðuðum hinn stórfenglega Urquhart kastala.
Eftir hádegismat við kastalann var ekið (1 klst 45 mín) til Burghead (Borgarhöfðavirkis í Vígroða). Þar vorum við dágóða stund og ókum (1 klst 45 mín) síðan til Tain, þar sem gist var næstu nótt.

Gististaður: Morangie Hotel, Morangie Road, Tain IV19 1PY
Kvöldverður kl. 20:15 á hótelinu.

 

Fimmti dagur: Tain – Katanes – Tunga og Þórsá – Orkneyjar

Mánudagur 06.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Kl. 8:30 var ekið (3 klst) norður til Kataness. Á leiðinni sáum við vellina þar sem þing norrænna manna var háð í Vígroða við Lagavatn (Loch Loyal) undir Lagafjalli (Ben Loyal), Tungu (Tounge) og Þórsá (Thurso), jörð Auðar. Snæddum hádegisverð á Mackays Hotel í Wick (Vík).  Óvænt heimsókn til Limmu konsúls og Nick, þar sem við fengum kaffi og meððí.
Þaðan var ekið framhjá Freswick (Þraðsvík á Skarðsströnd) til Duncansby Head (Dungaðsbær í
Blóðugri jörð). Stöldruðum þar við og skoðuðum okkur um. Síðan var ekið til John O‘Groats á leið okkar til Scrabster (Skarabólstaðar). Þar tókum við ferjuna kl. 19:00 og sigldum í kjölfar Auðar framhjá Hoy (Háey) til Stromness (Straumness) á Orkneyjum, þar sem Orkneyjajarl bjó undir Varðhól.
Siglingin tók 90 mínútur. Boðið var upp á kvöldverð í ferjunni.
Að siglingu lokinni var ekið til Kirkwall (Kirkjuvogs). Þar var gist næstu 2 nætur.

Gististaðir: West End Hotel, 14 Main Street, Kirkwall KW15 1BU
Orkney Hotel, 40-41 Victoria Street, Kirkwall KW15 1DN

 

Sjötti dagur: Orkneyjar – Brodgar steinahingur – Scara Brae steinaldarþorp

Þriðjudagur 07.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Kl. 9:00 var lagt af stað í skoðunarferð á Orkneyjum þar sem við heimsóttum Standing Stones of Stennes (brúðkaupið á Steinanesi í
Blóðugri jörð), steinahringinn Ring of Brodgar og rústir jarlahallarinnar í Birsey. Boðið var uppá hádegisverð á Merkister Hotel við Harray Loch.
Að loknum hádegisverði skoðuðum við steinaldarþorpið Scara Brae. Ekið þaðan til Lambholm, þar sem við skoðuðum kapelluna sem ítalskir stríðsfangar smíðuðu í seinni heimstyrjöldinni.
Að lokum var ekið til baka til Kirkwall.

Gististaðir: West End Hotel, 14 Main Street, Kirkwall KW15 1BU
Orkney Hotel, 40-41 Victoria Street, Kirkwall KW15 1DN

Kvöldverður á Orkney Hotel kl 19:30

 

Sjöundi dagur: Kirkwall – Stromness – ferjusigling – Wick – Inverness

Miðvikudagur 08.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Frjáls dagur í Kirkwall.
Hádegisverður á Orkney Hotel kl. 12:30.
Kl. 15:30 var ekið frá Kirkwall til Stromness, þar sem við tókum ferjuna yfir til Scrabster kl. 16:45.
Þaðan var ekið (30 mín) til Wick. Þar snæddum við kvöldverð.
Að því loknu var ekið (2 klst 15 mín) suður til Inverness (Nesárósar í Vígroða) þar sem gist var næstu nótt.

Gististaður: Premier Inn River Ness, 19-21 Huntley Street, Inverness IV3 5PR

 

Áttundi dagur: Inverness – Pitlochry – Stirling

Fimmtudagur 09.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Kl. 9:00 var ekið (1 klst 45 mín) til Pitlochry. Þar var stoppað í 45 mín. Þaðan var ekið (90 mín) til Stirling. Frjáls dagur í Stirling.

Gististaður: The Golden Lion Hotel, 8-10 King Street, Stirling FK8 1BD
Kvöldverður 19:30 á hótelinu.

.

Níundi dagur: Stirling – Glasgow – Ísland

Föstudagur 10.09.21
Morgunverður kl. 07:30.

Kl. 08:30 var ekið (50 mín) til Glasgow flugvallar.
Kl. 10:00 var Covid hraðpróf á flugvellinum.
Flug til Íslands með Icelandair kl. 13:40.  Flugtími 1 klst 50 mín.

 




Ýmislegt í belg og biðu…

 

62% landnámskvenna ráku ættir sínar frá Bretlandseyjum, en einungis 37% til Noregs.

 

Vilborg Davíðsdóttir/Vísindavefurinn:  Var eiginmaður Auðar djúpúðgu konungur í Dyflinni?

 

Jens Guð:  Afhverju er Auður kölluð djúpúðg?
https://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1306738/
Svar í kommentum:
Auður djúpúðga var keltnesk höfðingjakona. Því er eðlilegast að leita merkingar í gelísku. Djúpúðga gæti mjög sennilega verið Deu Butka (djúbudga) sem þýðir guðs vinur; enda eldheit trúkona hún Auður.
                                                                       – Freyr Eyjólfsson   

 

Orkneyinga saga (Wikipedia)

 

27 Amazing Things to Do in Orkney + Know Before You Go

 

 

Úr gömlu bloggi. Fjallað um flöskuskeytið sem lenti á Tiree, eyju Ketils flanefs.
(Margar krækjur hafa rofnað):

Ævar vísindamaður og flöskuskeytið frábæra með gervihnattatengingu…

Flöskuskeytin tvö hafa nú ferðast yfir 10.000 kílómetra…

Flöskuskeytið víðförla. Myndband sem tekið var þegar skeytið fannst…

Uppfært 18:00 >>> Iceland-1 flöskuskeytið er komið í fjöruna á eyjunni Tiree…

 

 

Skotganga

Vilborg Davíðsdóttir

Auðarferð-1  2021 á Facebook

 

 
Silfrið: Vilborg Davíðsdóttir um Blóðuga jörð

.

Slfrið: Vilborg Davíðsdóttir um Vígroða
https://www.youtube.com/watch?v=KqjYMDTZx_s
 

Auður Djúpúðga: Auður Sheanachar: Auður the Deepminded
A thousand year old saga of a valiant viking woman linked to women of the Outer Hebrides today.
The video was produced in collaboration with UistFilm as part of the exhibition at Taigh Chearsabhagh Museum & Art Centre October/ November 2020. …

https://vimeo.com/466613537

https://www.megrodger.com/#/auor-the-deep-minded-2020/

.

Skara Brae: Orkney’s Neolithic Heart
https://www.youtube.com/watch?v=GgWJSbdb4kI

 

The Entire History of Orkney // Vikings Prehistory Documentary
https://youtu.be/sL86dy5Z–M

 

 

.

.

 

 

 

Ferðalag fyrsta flöskuskeytisins (rauður ferill) frá Reykjanesi að eyjunni Tiree þar sem Ketill flatnefur, faðir Auðar, bjó.
Ferðin tók um 1 ár og um 15.000 kílómetra. Flaskan sendi staðsetningarskeyti um gervihnött með 10 metra nákvmæmni á 6 klst fresti.

Flöskuskeytið alveg við að taka land á Tiree, en það lenti á nefinu (flatnefinu?) sem er beint í austur (hægri) frá síðasta punkti. GPS upplýsingarnar eru frá búnaðinum í flöskuskeytinu.

 

 


Myndasafn
Myndir teknar í ferðalaginu með Samsung S10 síma.

Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan til að komast í vefalbúmið, eða notið gluggan að vefalbúminu hér fyrir neðan. Notið síðan stjórnborið sem birtist efst til að velja yfirlits-smámyndir (thumbnails) eða ferðast milli mynda. Þar er fljótlegt og þægilegt að fletta milli mynda, handvirkt eða sjálfvirkt.

Skotland-2021 (agust.net)

 

 

Cranachan, frábær skoskur desert með wiskí 🙂

Uppskriftir víða á netinu. Til dæmis hér.

Vandamál: Í Cranachan þarf að nota “Double Cream” sem er 48% rjómi. Fáanlegur á Íslandi?





Fæst virkilega hvergi Haggis á Íslandi?
Fæst niðursoðið í Melabúðinni 🙂