Geimskot Frakka á Íslandi 1964 og 1965 . . .

 

Upphaflega 2006. Útgáfa 9. júní 2021

 

 

 

 

 

 

 

Geimskot Frakka á Íslandi
1964 og 1965 . . .

Betri vefsíða með stærri myndum HÉR.

Það kemur mörgum á óvart að heyra að franskir vísindamenn hafi skotið fjórum eldflaugum út í geiminn frá Íslandi fyrir tæplega sex áratugum.  Út í geiminn? Já, og meira að segja í 440 km hæð eða um 100 kílómetrum hærra en Alþjóða geimstöðin (Internartional Space Station) svífur umhverfis jörðu. Eldflaugarnar féllu í hafið langt fyrir sunnan land.

Sumarið 1964 settu frönsku vísindamennirnir frá CNES (Centre National d’Etudes Spatiales) upp búðir sínar á Mýrdalssandi á móts við Höfðabrekku og skutu upp tveim eldflaugum. Sumarið 1965 settu þeir upp búðir á Skógasandi og skutu aftur upp tveim eldflaugum. Höfundur vefsíðunnar, sem á þessum árum var nemandi í MR, var þarna á staðnum á vegum Almannavarna ríkisins, sem auðvitað var bara yfirskin til að fá leyfi til að komast í návígi við þennan einstæða atburð,  og hafði tækifæri til að njóta geimskotanna, enda vantaði ekki áhugann. Myndavélin var auðvitað með í för.

Tilgangur geimskotanna var að rannsaka Van Allen beltið, en þar sem það kemst næst jörðu við heimskautin myndast oft norðurljós.   Rafagnir sólvindsins festast í Van Allen beltinu, þjóta fram og aftur milli segulskauta jarðar, og mynda norðurljós þegar þær rekast á loftagnir í háloftunum, segir í flestum kennslubókum.  Nú á tímum er reyndar talið að atburðarásin sé töluvert flóknari. Ísland hentaði vel til þessara rannsókna frönsku vísindamannanna vegna legu sinnar nærri norðurljósabeltinu, og væntanlega einnig vegna eyðisandanna á Suðurlandi og opna hafinu þar fyrir sunnan.

Sjá http://astronautix.com/v/vik.html

 

Eldflaugarnar voru af Dragon-1 gerð. Þær voru tveggja þrepa. Neðra þrepið kallaðist Stromboli, en efra þrepið Belier.

 

Helstu einkenni Dragon-1:

Mesta skothæð: 475 km
Knýr við flugtak: 75 kN
Heildarþungi við flugtak: 1.157 kg
Þvermál neðri hluta: 0,56 m
Vænghaf: 1,23 m
Lengd: 7,10 m
Burðargeta: 60 kg.
Eldsneyti: Fast, 686 kg í fyrra þrepi og 208 kg í síðara þrepi.

Alls var skotið 55 Dragon flaugum víðs vegar um heim á árunum 1962-’73. Þrjú skot misheppnuðust, en 52 tókust vel.

 

Eldflaugaskotin á Íslandi:

1. ágúst 1964, Mýrdalssandur.  Dragon D-10. Flughæð 440 km.
7. ágúst 1964, Mýrdalssandur.  Dragon D-11. Flughæð 420 km.

24. ágúst 1965, Skógasandur.  Dragon D-17. Flughæð 440 km.
3.  september 1965, Skógasandur.  Dragon D-18. Flughæð 440 km.

Árið 1964 var skotpallurinn á sandinum á móts við Höfðabrekkuheiði, en skammt austan Skóga árið 1965. Sjá kort og loftmyndir neðst á síðunni.

Hluti mælabúnaðar Segulmælingarstöðvarinnar í Leirvogi. ÁHB tók myndina 1968.

Gríðarstórir loftbelgir með mælitækjum voru sendir á loft annað slagið. Vísindamennirnir voru í stöðugu sambandi við Háloftadeild Raunvísindastofnunar Háskólans, sem um áratugaskeið hefur rekið Segulmælingastöðina í Leirvogi, en skotið var þegar mælitæki gáfu til kynna að árangur af geimskotinu yrði væntanlega góður. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur stóð vaktina í Reykjavík vegna fyrsta skotsins og fylgdist með mælingum frá forláta segulmæli sem nýlega hafði verið þróaður á Raunvísindastofnun. Á síritanum, sem var í Gömlu loftskeytastöðinni á Melunum, var ferill sem sýndi breytingar í segulsviði jarðar. Þessar breytingar voru mælikvarði á það sem var að gerast í háloftunum. Þegar Þorsteinn sá verulegar breytingar lét hann vísindamennina á sandinum vita um talstöðvarsamband. Segja má að Þorsteinn hafi nánast stjórnað geimskotinu og sagt til hvenær skyldi skjóta. Við næstu skot notuðu Frakkarnir segulmæli sem Raunvísindastofnun lánaði þeim.

 

Myndir:

Fyrstu myndirnar hér fyrir neðan tók höfundur vefsíðunnar árið 1964 þegar hann var 19 ára. Myndir frá 1965 leynast vonandi enn einhvers staðar í kössum eða kirnum, en verða settar hér ef þær finnast. Neðarlega er skemmtileg mynd ásamt kynningu á helstu vísindamönnunum sem Þorsteinn Sæmundsson tók sumarið 1965. Neðst eru loftmyndir og mynd að korti sem unnið var hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, sem varð síðar hluti af Verkís.

Myndirnar hér fyrir neðan eru nokkurn vegin í tímaröð.

 

 

Hjálmar Sveinsson þungt hugsi í forgrunni, enda mikil spenna í loftinu síðla sumars árið 1964.          Ljósm. ©ÁHB

 

Skotpallurinn undirbúinn           Ljósm. ©ÁHB

 

Stækkun úr myndinni hér að ofan. Hjálmar Sveinsson kemur gangandi.           Ljósm. ©ÁHB

 

Fyrsta flaugin Dragon D10. Eldflaugin er yfir 7 metra löng og 1100 kg að þyngd.      Ljósm. ©ÁHB

 

Hún er rennileg séð frá þessu sjónarhorni. Dr. Mozer er hægra megin.           Ljósm. ©ÁHB

 

Á spjaldinu sem lokar eldhólfinu stendur Stromboli. Dr. Forrest Mozer í bakgrunni.           Ljósm. ©ÁHB

 

 

Rigning. Frakkarnir með sjóhatta.           Ljósm. ©ÁHB

 

 

Mýrdalssandur Space Center.
Takið eftir loftnetsspeglunum sem voru notaðir til að taka á móti merkjum frá eldflauginni og loftbelgnum.           Ljósm. ©ÁHB

 

Lyft í skotstöðu           Ljósm. ©ÁHB

 

Komin í skotstöðu. Ágúst Valfells fylgist með.           Ljósm. ©ÁHB

 

Höfundur pistils, Ágúst H. Bjarnason, við Dragon D-10.  Ljósm. ©ÁHB

Stefnt til himins           Ljósm. ©ÁHB

 

Sigurður Ágústsson lögregluþjónn. Þekktur sem Siggi Palestína, en hann var um skeið á vegum Sameinuðu þjóðanna í Palestínu. Mikið ljúfmenni. Fulltrúi yfirvaldsins uppi á Höfðabrekkuheiði. Farið var með Harley Davidsson upp á topp vegna VHF talstöðvarinnar sem var á hjólinu. Það var ekki auðvelt mál, en hafðist með hjálp góðra manna.  Gufunes burðastöð í forgrunni. Svona stöðvar voru gemsar þess tíma, en á Gufunesbylgjunni mátti tala yfir fjöll og firnindi með endurkasti frá jónahvolfinu sem Frakkarnir voru að rannsaka.           Ljósm. ©ÁHB

 

 

Yfirmennirnir eru að taka ákvörðun hvort skjóta eigi. (Annars staðar hefur komið fram að eiginlega fór ákvörðunin fram í Reykjavík fyrra árið).  Nokkur óvissa var fyrir þetta skot. Skyndilega birtust óvenjulega mikil norðurljós og þá var ekki til setunnar boðið og skot undirbúið. Eldflaugin stefndi beint í miðju norðurljósakórónu. – Merkilegt hve undirritaður fékk að skoða sig um inni í stjórnstöðinni. Annað hvort var hann ósýnilegur, eða Frakkarnir svona einstaklega ljúfir.           Ljósm. ©ÁHB

 

 

Eldflauginni skotið á loft. Linsan á myndavélinni var opin í nokkrar sekúndur. Ekki var notaður þrífótur, en myndatökumaðurinn notaði það sem hendi var næst af búnaði stöðvarinnar til að styðja myndavélina.  Linsan er 50mm, og sést af því að myndin er tekin skammt frá skotstað. Gríðarlegur hávaði !           Ljósm. ©ÁHB

 

Ánægðir leiðangursmenn á leið heim í hótel seint að kvöldi eftir velheppnað skot.           Ljósm. ©ÁHB

 

Þessa mynd tók Dr. Þorsteinn Sæmundsson árið 1965.             Ljósm. © Þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn segir svo frá:

“Á myndinni sjást (til vinstri) Forrest Mozer, síðar prófessor við Berkeley háskóla, og (fyrir miðju) prófessor Jacques-Emile Blamont, einn fremsti geimrannsóknamaður Frakka og sá sem stjórnaði þessum leiðangri. Hann var þá yfirmaður tækni- og vísindadeildar frönsku geimrannsóknastofnunarinnar CNES (Centre National d’Études Spatiales). Mig minnir að hann hafi átt drýgstan þátt í að Frakkar komu sér upp eldflaugaskotstöð í Kourou í frönsku Gajana (Guiana)”.

 

 

 

 

 

 

 


Þorsteinn Sæmundsson
fékk þennan pening
til minningar um geimskotin
og í þakklætisskyni fyrir veitta aðstoð. Ártalið er 1964.

 

Höfundur pistilsins fékk þennan pening til minningar um geimskotin.  Ártalið er 1965.

 

 

 

 

 

Hvar voru skotpallarnir?

Agust Gudmundsson :

Fór rannsóknarferð að finna skotstaðina 1964 og 1965. Skotpallurinn steypti sem var 1964 móts við Höfðabrekku virðist vera um 10-20m frá þjóðvegi 1, rétt austan við nýju brúna. En skotpallurinn neðan Skóga 1965 fannst eftir nokkra leit, notað var sjónarhorn einnar ljósmyndarinnar til að ná réttu sjónarhorni og finna staðinn. Þegar staðsetningin var komin, þá var ekki mikill vandi að finna hann á Google Earth þar sem greinilega var búið að bæta upplausnina kringum Eyjafjallajökul. Hér er tengill sem ætti að sýna steyptan skotpallinn í svörtum sandinum https://maps.google.com/maps?t=h…

https://www.google.com/maps/@63.4773894,-19.4434353,323m/data=!3m1!1e3

https://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/477982/#comment1233833
Skotpallurinn milli Múlakvíslar og Hjörleifshöfða sást nokkuð vel af gamla veginum (sunnan hans, nær Hjörleifshöfða minnir mig), hef ekki athugað hvernig hann liggur miðað við “nýju” veglínuna.

Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 13:06

 

 

 

 

 

 

 

 

Við tiltekt hjáa Verkís árið 2014 fannst þetta landakort frá árinu 1965 í gömlum gögnum frá VST – Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen.  Eins og sjá má, þá er búið að staðsetja skotpallinn á Skógasandi.

 

 


***

Dragon eldflaugaskot upp í segulhvolfið. Sjá töfur hér.

 

Nokkur minningarbrot:

 

Fyrra sumarið var Ágúst Valfells kjarnorkuverkfræðingur forstöðumaður Almannavarna, en síðara sumarið Jóhann Jakobsson efnaverkfræðingur.

Á söndunum var auðvitað eins konar mini-Frakkland og ríktu þar franskar hefðir. Meðal annars var auðvitað drukkið rauðvín með mat og þegar tilefni var til. Yfirleitt virtu laganna verðir þetta, en eitt sinn lenti íslenski túlkurinn í því að vera stöðvaður á þjóðveginum eftir að hafa innbyrt fáein glös. Nú voru góð ráð dýr, eða hvað? Hann greip til þess ráðs að þykjast ekki skilja íslensku og talaði bara frönsku, enda nýbúinn að smyrja málbeinið með franskri goggolíu. Laganna vörður skildi ekki neitt, og til að forðast óþarfa vandræði gaf hann honör og kvaddi hinn frönskumælandi mann með virktum.

Þarna voru ungir Frakkar sem voru miklir sjarmörar og auðvitað margar bráðfallegar ungar ólofaðar íslenskar stúlkur. Eftir á að hyggja stóðust þær freistinguna með mikilli prýði. Mér er til efs að íslenskir strákar hefðu staðið sig eins vel ef Frakkarnir hefðu verið af hinu svokallaða veikara kyni.

Gísli Gestsson ljósmyndari myndaði geimskotinn af fagmennsku. Hann fékk leyfi til að vera fáeina metra frá skotpallinum fram á síðustu stundu, en átti að forða sér fáeinum sekúndum fyrir skot, þegar ekki varð aftur snúið. Öllum til mikillar hrellingar hreyfðist ekki hvíti fólksvagninn sem hann var á. Hafði hann gleymt sér? Var hann í bráðri lífshættu við skotpallinn? Margar hugsanir flugu um hug flestra sem voru í hæfilegri fjarlægð að eigin áliti. Skyndilega skýst VW-bjallan af stað, og örskömmu síðar flaug eldflaugin upp í himinhvolfið. Vart mátti greina hver færi hraðar. Síðar kom í ljós að Gísli var á bílaleigubíl sem var með aðskildum svisslykli og startara sem var takki í mælaborðinu. Gísli áttaði sig ekki á þessum fornaldarbúnaði á öld tækni og geimferða og varð því heldur seinn fyrir. (Kanski eru þetta smá ýkjur sem ég vona að Gísli fyrirgefi).

Á skrifstofu sýslumannsins í Vík var komið upp stjórnstöð Almannavarna. Berent Sveinsson loftskeytamaður kom þar upp talstöð á “tuttuguogsjö-nítíu”, eða 2.790MHz Gufunes-radíó tíðninni. Hann setti upp langan vír sem loftnet og “counterpoise” sem jörð, svo radíómál sé notað. Tilgangurinn var að hafa samband við varðskip sem lá skammt fyrir utan ströndina. Fulltrúar Almannavarna tóku hlutverk sitt hæfilega alvarlega og reiddu sig á meðfædda skynsemi og brjóstvit landans, enda var þetta bara rakettuskot, eða þannig.

Uppi á Höfðabrekkuheiði var stjórnstöð lögreglunnar í tjaldi, en þar sást vel yfir Mýrdalssand. Siggi Palestína eins og hann var kallaður var fullrtúi lögreglunnar. Hann var hið mesta ljúfmenni og þægilegur í umgengni, kanski vegna þess að hann var reynslunni ríkari eftir störf í Palestínu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hann var því óneitanlega heimsborgari í öllu fasi. Á Harley Davidson var forláta VHF talstöð sem ekki var hægt að taka af. Því var gripið til þess ráðs að fara með hjólið alla leið upp á topp, þó það kostaði pústra og stunur margra meðhjálpara. Þetta er langþyngsta ferðatalstöð sem undiritaður hefur komist í kast við.

Lemúrinn:
Agust Gudmundsson

Fór rannsóknarferð að finna skotstaðina 1964 og 1965. Skotpallurinn steypti sem var 1964 móts við Höfðabrekku virðist vera um 10-20m frá þjóðvegi 1, rétt austan við nýju brúna. En skotpallurinn neðan Skóga 1965 fannst eftir nokkra leit, notað var sjónarhorn einnar ljósmyndarinnar til að ná réttu sjónarhorni og finna staðinn. Þegar staðsetningin var komin, þá var ekki mikill vandi að finna hann á Google Earth þar sem greinilega var búið að bæta upplausnina kringum Eyjafjallajökul. Hér er tengill sem ætti að sýna steyptan skotpallinn í svörtum sandinum https://maps.google.com/maps?t=h…

https://www.google.com/maps/@63.4773894,-19.4434353,323m/data=!3m1!1e3

https://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/477982/#comment1233833
Skotpallurinn milli Múlakvíslar og Hjörleifshöfða sást nokkuð vel af gamla veginum (sunnan hans, nær Hjörleifshöfða minnir mig), hef ekki athugað hvernig hann liggur miðað við “nýju” veglínuna.

Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 13:06

 

 

Ef til vill eiga fleiri myndir og gögn eftir að finnast og verða þá sett hér inn. Allur fróðleikur er vel þeginn.

 




 

 

Krækjur:

Dragon

Stromboli

Rockets in Europe

Dragon eldflaugaskot

Eldflaugaskot Frakka o.fl.

Háloftarannsóknir á Íslandi,    Dr. Gunnlaugur Björnsson.

Vefsíða íslensku eldflaugasmiðanna

Lemúrinn: Geimskot frakka á íslandi.

Sólin, jónahvolfið, norðurljósin og útvarpsbylgjur

Takk fyrir komuna.

Örlygur Richter teiknaði þessa mynd af undirrituðum vorið 1966. Myndin birtist í útskriftarbók Menntaskólans í Reykjavík, Fauna, og á að vísa til áhuga á geimvísindum og radíótækni.

Ef til vill eiga fleiri myndir og gögn eftir að finnast og verða þá sett hér inn. Allur fróðleikur er vel þeginn.

Ágúst H. Bjarnason, verkfræðingur
TF3OM
agbjarn@gmail.com

 

 

“Life is like a box of chocolates. You never know what you are gonna get”


Forrest Gump