Andromeda

Andromeda vetrarbrautin er glæsileg. Smella þrisvar á myndina til að sjá stærri mynd. Astronomy Picture of the Day 2008-1-24

( Sjá bloggpistilinn Hefur þú séð Andromedu? )

Andromedu vetrarbrautina má greina með berum augum þar sem ljósmengun er mjög lítil, en hún sést vel með venjulegum handsjónauka sem frekar óskýr hnoðri í Andromedu stjörnumerkinu. Hún er í 2,8 milljón ljósára fjarlægð, þannig að svona leit hún út fyrir 2.800.000 árum! Þarna eru milljarðar sólna og ekki ólíklegt að einhvers staðar sé viti borið líf. Hugsanlega er þar einhver að virða fyrir sér okkar vetrarbraut 🙂

Stjörnufræðingar nefna hana oft M31, en hún er svokölluð þyrillvetrarbraut eins og okkar eigin vetrarbraut. Þar eru líklega meira en 400 milljarðar sólna.  Hugsum okkur að aðeins ein sól af milljón hafi reikistjörnu sem líkist jörðinni og að þar hafi líf í einhverri mynd þróast. Í Andromedu væru þá 400 milljón þannig “jarðir”.  Auðvitað vitum við nákvæmlega ekkert um þetta, en það er gaman að láta hugann reika. Hugsum okkur aftur að við viljum ná sambandi við einhverja viti borna veru þar og sendum skilaboð með öflugum útvarpssendi. Viðkomandi fær ekki skeytið fyrr en eftir 2,8 milljón ár og við hugsanlegt svar í fyrsta lagi eftir 5,6 milljón ár!  🙂

Reyndu að koma auga á Andromedu næst þegar þú ert undir stjörnubjörtum himni þar sem ljósmengun er lítil. Þú getur notað stjörnukortið sem er neðst á síðunni til að finna hana.

(Orðið “vetrarbraut” er hér notað fyrir “galaxy” þar sem við eigum ekkert gott íslenskt orð yfir fyrirbærið. Orðið stjörnuþoka er ekki nógu gott því það þýðir eiginlega rykský í himingeimnum.   Orðið stjörnuþoka er einnig oft notað fyrir galaxy og einnig óreglulegar stjörnuþyrpingar).

Þegar bloggarinn var að taka mynd af Hale Bopp halastjörnunni í mars 1997 var hann svo heppinn að Andromeda vetrarbrautin var þar nálægt og sést hún neðst til hægri á myndinni.

Á myndinni má einnig sjá aragrúa stjarna sem eru ósýnilegar með berum augum. Filma var Kodak PPF Pro 400 ASA. Linsa 135mm, Ljósop 3,5. Lýsingartími um 2 mínúur. Stjörnuhimninum var fylgt eftir með heimasmíðuðu mótordrifi.

haleBopp-andromeda-aurora-crop-saturation-700

 Hale Bopp, Andromeda og norðurljós í mars 1997

Andromedu má sjá á stjörnukortinu hér fyrir neðan sem gildir fyrir 4. febrúar 2008 kl. 21.00

Svona kort er hægt að sjá á vefsíðunni Heavens Above.
Þar er hægt að teikna kort fyrir hvaða stað sem er á jörðinni, og nánast hvaða tíma sem er.

Þetta er mjög áhugaverð vefsíða. Með því að skrá sig sem notanda (Register as an user) og gefa upp stað (Observing site, t.d. Reykjavík) er hægt að sjá stjörnukort fyrir himininn eins og hann er núna, miðað við staðinn sem gefinn er upp.  Ýmislegt fleira forvitnilegt er þar, svo sem upplýsingar um brautir gervihnatta, halastjörnur, o.fl.

Andromeda er mjög hátt á himninum í vesturátt um kl 21.   Auðvelt er að finna stóra “W” stjörnumerkið Cassiopeia, en Andromeda er nánast “undir” W-inu. Ef þú veist hvar pólstjarnan er, þá skaltu draga ímyndaða línu þaðan og í gegn um W og framlengja hana síðan þar til hún sker Andromedu vetrarbrautina. Notaðu venjulegan handsjónauka.

Stjornukort

 Myndin efst er frá Astronomy Picture of the Day (APOD)

 

Leave a Reply