Saga RT ehf – Rafagnatækni í hnotskurn…

sirkill_minni

Saga RT ehf – Rafagnatækni í hnotskurn

Í vinnslu.          Uppphaflega 2002 á vef RT ehf-Rafagnatækni,  útgáfa: 3.1.2020

 

Hér verður stiklað á stóru, enda illmögulegt að gera yfirgripsmikilli sögu RT ehf – Rafagnatækni skil í stuttu máli.

Árið 1961 stofnuðu Björn Kristinsson rafmagnsverkfræðingur, Páll Theódórsson eðlisfræðingur og Örn Garðarsson eðlisverkfræðingur, fyrirtækið Rafagnatækni sf. Páll og Örn drógu sig fljótlega úr rekstrinum, en tóku þó þátt í þróun fyrstu tækjanna. Björn og starfsmaður fyrirtækisins, Ástvaldur Guðmundsson rafmagntæknifræðingur, héldu starfseminni áfram.

Nokkrum árum síðar hóf Aðalsteinn Guðbjörnsson rafmagnstæknifræðingur störf hjá fyrirtækinu, og Ágúst H. Bjarnason rafmagnsverkfræðingur haustið 1971.  Þorvaldur Sigurjónsson rafmagnsverkfræðingur hóf störf árið 1977 og Jón Björnsson árið 1998. Helga Björnsdóttir hóf störf árið 1985  og sá um skrifstofustörf og tækniteiknun.

Árið 1987 var RT ehf stofnað, og voru hluthafar þáverandi starfsmenn Rafagnatækni; Björn Kristinsson, Aðalsteinn Guðbjörnsson, Ágúst H. Bjarnason, Helga Björnsdóttir og Þorvaldur Sigurjónsson. Nokkru síðar yfirtók RT ehf allan rekstur Rafagnatækni sf með óbreyttu starfsliði. Þó formlega væri nafn nýja fyrirtækisins RT, gekk það yfirleitt undir nafninu RT-Rafagnatækni. Aðalsteinn lést árið 1997 og nokkru eftir lát hans tóku Ágúst, Björn, Helga og Þorvaldur yfir hlut Aðalsteins. Nokkru síðar ánafnaði Björn Jóni syni sínum sinn hlut í fyrirtækinu.

J. Rúnar Magnússon vélaverkfræðingur hóf störf um 1990 og starfaði í nokkur ár við hönnun ferskleikaflokkara fyrir fisk. Ragnar Þ. Ágústsson starfaði í tæpt ár við uppsetningu skjástýrikerfa (scada) áður en hann hóf nám í tölvunarfræði.

Skömmu fyrir síðustu aldamót hóf Jón Jónsson tæknifræðingur störf hjá fyrirtækinu, svo og Michael Hermann Christ rafiðnfræðingur.   Hörður Mar Tómasson verkfræðinemi hóf störf sem sumarmaður  árið 2004 og síðar sem rafmagnsverkfræðingur.  Emil Sigurvinsson verkfræðinemi hóf störf sem sumarmaður  árið 2005 og síðar sem rafmagnsverkfræðingur. Helgi Már Ísaksen rafiðnfræðingur hóf störf árið 2002 og starfaði aðallega við hönnun ljósleiðarakerfa.

Björn var framkvæmdastjóri lengst af, eða frá 1961 til 1995 er Ágúst tók við. Fyrirtækið starfaði til ársins 2008 er það sameinaðist öðrum verkfræðistofum og úr varð Verkís. Hér á eftir eru nokkur minnisstæð verkefni, – ekki endilega í tímaröð. Sagan er enn í mótun, og sama er að segja um þessa vefsíðu.

 

Fyrstu skrefin – Jarðeðlisfræði

Fyrsta verkefnið var framleiðsla á mjög vönduðum geislamælum (Anticoincidence Counter), líklega þeim nákvæmustu sem völ var á í heiminum, en þeir gerðu greinarmun á geislum frá sýninu og truflandi geimgeislum.

Geislamælir, einn sá besti í heimi á sínum tíma.

Geislamælir, einn sá besti í heimi á sínum tíma.

Þetta var gert með því að hafa tvo teljara, mæliteljara og þar yfir skermteljara. Geimgeisli, mesóna, fór í gegn um báða teljarana og þeirri talningu var hent. Þegar merki kom bara frá mæliteljaranum var það talið, þ.e. “anticoincidence”-talning. Þetta var á bernskudögum stafrænu tækninnar, og allar rökrásir smíðaðar með smárum og öðrum íhlutum. Dekatrónur sáu um talningu og vísun. Að sjálfsögðu voru ekki til samrásir, hvað þá örtölvur, á þessum bernskudögum rafeindatækninnar. Á myndinni er hægra megin við geislateljarann er geislaskermur úr járni sem fengið var úr farmi skips sem strandaði við suðurströndina. Þetta járn var laust við geislavirkni, enda frá því fyrir tíma atómsprengjanna. Á þessum dögum voru kjarorkutilraunir stórveldanna í algleymingi, og því erfitt að fá ógeislamengað járn fyrir mælihylkið. Því var gripið til þess ráðs að sækja járn í gamlan togara, sem strandað hafði á söndum Suðurlands áður en þessar tilraunir hófust.

Meðal fyrstu verkefna var þróun á vönduðum og meðfærilegum segulmælum (Fluxgate Magnetometer), en þá voru sambærileg mælitæki ekki til.

Fluxgate segulmælir

Fluxgate segulmælir

Þessir segulmælar voru lengi notaðir af jarðvísindamönnum til þess að finna hvort berglög væru rétt eða öfugt segulmögnuð, bæði á Íslandi og erlendis, og þóttu mikil völundarsmíð. Þeir voru ekki stærri en lítil myndavél, og að sjálfsögðu fylgdi vönduð leðurtaska gripnum. Fleiri tæki voru þróuð á þessum fyrstu árum, svo sem mæli- og skráningarbúnaður fyrir rannsóknir á jarðsegulsviði og norðurljósum. Í segulmælingastöð Háloftadeildar Raunvísindastofnunar í Leirvogi var lengi stór hluti tækjabúnaðar frá Rafagnatækni.

Hluti tækjabúnaðar í Segulmælingastöðinni

Hluti tækjabúnaðar í Segulmælingastöðinni

Á myndinni, sem tekin er í Segulmælingastöðinni fyrir allmörgum árum, má sjá nokkur dæmi. Lengst til vinstri í efri röð er segulmælirinn Magni (Proton Precession Magnetometer). Hann vinnur ekki ósvipað segulómunartækjum nútímans, en í stuttu máli þá vann hann þannig að flaska með vatni var segulmögnuð í skamma stund með öflugu segulsviði, þannig að róteindir vetnisatómanna röðuðu sér upp eins og yngismeyjar á dansgólfi. Þegar segulsviðið sleppti af þeim tökum, og jarðsviðið tók við, dönsuðu þær í takt og í nokkrar sekúndur mátti heyra óm frá róteindunum. Proton Precession Magnetometer kallast svona tæki fullu nafni, en Magni í daglegu tali hér á landi. Tónhæð ómsins er nákvæmur mælikvarði á styrkleika jarðsegulsviðsins. Reyndar er réttara að líkja þessu við snúning skopparakringlunnar en dansmeyjar. Precession kallast velta skopparakringlunnar þegar hún hægir á sér. Í jarðsviði (um 50 nanotesla eða gamma) er tónhæðin um 2400 Hz.

Fyrir miðju á hillunni má sjá merkilegan stafrænan skráningarbúnað fyrir Magna. Með ákveðnu millibili var Magni ræstur og mældi hann jarðsegulsviðið með mikilli nákvæmni. Mæligildin birtust á stafrænu formi ásamt tímamerkjum sem ljósdeplar á fleti inni í skráningarkassanum, en 16 mm kvikmyndavél skráði niðurstöður á einn ramma filmunnar í senn. Þetta var því traust optisk stafræn skráningartækni, en frést hefur að verið sé að þróa slíka tækni í útlöndum nú á 21. öldinni, – eða þannig…

Lengst til hægri er líklega nákvæmasta klukka á Íslandi síðari hluta 20. aldar. Þetta var ekki einungis kristalstýrð klukka, þar sem kristallinn var varðveittur við stöðugt hitastig, heldur einnig stjórneining, sem stjórnaði flestum aðgerðum í Segulmælingastöðinni.

Örn Garðarsson smíðaði Magna fyrir stofnun Rafagnatækni, en Björn Kristinsson smíðaði skráningarbúnaðinn og kristalklukkuna.

Ein leið til að staðsetja jarðhitasvæði er að mæla jarðviðnámið. Ekki dugir að nota einfaldan viðnámsmæli til verksins, og því smíðaði Rafagnatækni jarðviðnámsmæli, eins og sést á myndinni hér til hliðar.

Jarðviðnámsmælir

Jarðviðnámsmælir

Tækið sendi út púlsa með nokkur hundruð volta spennu og var straumur milli jarðskauta mældur. Með því að hafa langt billi milli mæliskauta er hægt að meta leiðnina langt undir yfirborði jarðar. Ýmsir stillimöguleikar, svo sem spenna og púlstími voru fyrir hendi. Tækið er ekki nein smásmíði, og þurfti tvo til að bera það.

 

Búrfellsvirkjun og krapahlaup

Þagar stóriðja hófst á Íslandi, og farið var að virkja Þjórsá til raforkuframleiðslu 1965-70, þufti að takast á við vandamál vegna mikils ísskriðs og krapahlaupa.

Krapi í Þjórsá

Krapi í Þjórsá

Rafagnatækni gekk til liðs við Landsvirkjun og hannaði búnað til að mæla ísskrið og gefa viðvörun þegar krapahlaup var í uppsiglingu, svo loka mætti inntakslokum Búrfellsvirkjunar við Ísakot. Þetta var töluvert vandamál, enda voru vetur að jafnaði harðari þá en undanfarin ár.

Bátur með mæliskauti

Bátur með mæliskauti

Krapi og ís, sem myndaðist á hálendinu, barst niður með ánni og átti til að safnast fyrir og stífla Þjórsá um tíma, þar til stíflan brast og óhemju blanda af vatni og krapi braust fram. Það hefði verið skelfilegt að fá þessa blöndu inn á hverfla virkjunarinnar.

Um var að ræða amk. þrjár mismunandi aðferðir vegna krapahlaupsvaktarinnar: Við Sandafell og víðar var komið fyrir bátum með krapamælibúnaði. Mæligögn voru send samfellt að Búrfellsvirkjun. Á myndinni má sjá einn bátanna með mælispjóti í botni. Öflugur fjaðrabúnaður kom í veg fyrir að ísjakar næðu að brjóta skynjarann. [Ath: Vantar myndir af “digital” mæliskauti og þrýstingsnema]

Við Ísakot (sem gárungar kölluðu Musteri óttans), en þar var möguleiki á að hleypa Þjórsá tímabundið framhjá virkjuninni meðan krapahlaup gekk yfir, voru krapmælar á veggjum. Þetta var í reynd röð mæliskauta, sem komið var fyrir í ryðfrírri súlu á vegg ísskolunarmannvirkisins.

Þrýstingsnemar á árbotninum gáfu viðvörun þegar krapahlaup kom æðandi, svo svigrúm gæfist til að fella inntakslokur við Ísakot. Á myndinni [vantar] má sjá þrýstingsnema í þungum blýumbúðum sem steyptar voru hjá Rafagnatækni. Þrýstingurinn var mælikvarði á vatnshæð árinnar á hverjum tíma, en tegurrás skynjaði breytingar og gaf viðvörun.

Úrvinnslubúnaður fyrir mælingar á krapi

Úrvinnslubúnaður fyrir mælingar á krapi

Auðvitað þurfti síðan úrvinnslu- og viðvörunarbúnað í Ísakoti og í  stjórnstöð virkjunarinnar. Myndin sýnir ísskriðsmæli sem tengdist bátum við Sandafell og víðar ásamt stillibúnaði fyrir viðvörunarmörk og framígrip. Búnaðurinn er greinilega smíðaður úr einingum sem raðað er í hillu. Eitt af vandamálunum, sem þurfti að kljást við, voru eldingar og yfirspennur á strengjum sem lágu t.d. milli Ísakots og Sandafells.

"Skjárinn"

“Skjárinn”

Gripið var til þess ráðs að nota fasamótað riðstraumsmerki í stað jafnstraums á símastrengnum, svo auðveldara væri að koma fyrir yfirspennuvörnum. Þetta var fyrir daga örtölvutækninnar, en menn dóu ekki ráðalausir. Ekki var kostur á að kaupa grafískan skjá, svo menn smíðuðu hann einfaldlega með fjölda ljósapera. Skjárinn sýndi á myndrænan hátt merki frá krapanemum.

 

 

 

Þórisvatnsmiðlun

Einn liður í því að ná tökum á duttlungum árinnar var miðlun vatns úr "Vatnsorgelið"Þórisvatni. Rafagnatækni hannaði fjarstýribúnað sem gerði kleift að stjórna árlokum við Vatnsfell frá Búrfelli, og miðla þannig vatni í Þjórsá eftir þörfum. Þessi fjargæslubúnaður var hannaður á fyrstu árum stafrænu tækninnar, en áður en örtölvur komu á markað. Gekk hann undir nafninu Vatnsorgelið, vegna torkennilega hljóða sem heyra mátti þegar hlustað var á samskipti tækjanna um símalínur, en slíkri digital tónlist voru menn óvanir. Einnig var í nafninu tilvísun í Vatnsfell þar sem önnur útstöðin var. Á myndinni má sjá búnaðinn í stjórnstöð Búrfellsvirkjunar. Efst er stafræn kristalsstýrð klukka og dagatal. Klukkan framkvæmdi mælingar á ákveðnum tímum, og einnig tengdist hún dagbókarprentaranum sem er neðst.

Séð inn í fjargæslubúnaðinn. Fjöldi prentrása.

Séð inn í fjargæslubúnaðinn. Fjöldi prentrása sést þar.

Fjöldi þrýstirofa á stjórnborðinu var til að velja útstöð og síðan aðgerð. Í glugga kom fram númer mælingar og mæligildi. Hægt var að tala milli staða með símtólinu. Þessi fjarstýribúnaður var smíðaður 1972, rétt áður en örtölvur komu á markað. Hann er að öllu leyti stafrænn og smíðaður með svokölluðum TTL samrásum. Jafnvel mótöldin voru sérsmíðuð, enda illfáanleg á þeim tíma. Auðvitað var þetta nokkuð flókin smíði, og sést bakvið forplötu stjórneiningarinnar á myndinni. Inni í stjórnkassanum voru 43 prentrásarbretti á tveim hæðum, en þá eru klukkan og prentaraeiningin undanskilin. Tenglar prentrásanna voru jafnvel gullhúðaðir innanhúss.

Loftbólu-vatnshæðarmælir

Loftbólu-vatnshæðarmælir

 

Útstöðin var álíka stór. Hún var smíðuð úr fjölda prentrásarbretta á tveim hæðum. Mótöld, analog-digital umbreytar, hitaferjöld, ofl. voru að sjálfsögðu “heimatilbúin”. Ekki var hægt að kaupa slíkar græjur í næstu búð eins og í dag.

Síðar var bætt við útstöð við Hófsvað í Tungná, og tengdist hún stöðinni við Vatnsfell um litla talstöð. Ekki var rafmagn á staðnum, aðeins 12 volta bílarafgeymir, svo vekja þufti rafeindabúnaðinn af dvala áður en mælingar fóru fram. [Ath: Vantar myndir af útstöð og skúr við Hófsvað]

Vatnsorgelið var djúpa laugin sem Ágústi var hent út í daginn eftir að hann hóf störf haustið 1971. Hann sá nánast einn um hönnun, smíði, prentrásagerð, prófanir og uppsetningu. [ Ath: mynd vantar]

Dæmi um mælitæki sem Rafagnatækni smíðaði á þessum árum er loftbólu-vatnshæðarmælir, sem m.a. var notaður til að mæla hæð í Þórisvatni og við Hófsvað. Þetta er svokallaður loftbólumælir sem sést á myndinni hér til hliðar. Sérstakt servókerfi leitaði upp yfirborð kvikasilfurssúlunnar með hjálp ljósgeisla og ljósnema, og tengdist servókerfið síðan svokölluðum BCD-Greycode áskóðara. Þannig var hægt að ná upplausn 1/1000 í vatnshæð. Vatnsorgelið sá síðan um að flytja 12 bita kóðann að Búrfelli. Sams konar áskóðari var notaður til að mæla stöðu Vatnsfellslokunnar, og tengdist hann einnig siggæslu til að halda lokunni í réttri stöðu.

 

Virkjanir og stóriðja

Rafagnatækni tók virkan þátt í hönnun orkuvera hér á landi og erlendis í samstarfi við Virki, og gerði m.a. útboðslýsingu fyrir raflínusíma og fjargæslukerfi byggðalínu RARIK árið 1979(?), svo og útboðslýsingu fyrir virkjun í Olkaria í Kenya í samstarfi við Virki hf árið 1978. Á fyrstu árum stafrænu tækninnar, löngu áður en samrrásir eða örtölvur komu á markað, smíðaði Rafagnatækni sjálfvirkan vélgæslubúnað fyrir dieselrafstöðvar RARIK. Búnaðurinn fylgdist með álagi og ræsti, samfasaði og stillti sjálfvirkt dieselrafstöðvar þegar þörf krafði. Rafagnatækni hafði eftirlit með fyrsta kerfiráði Hitaveitu Reykjavíkur, sem smíðaður var hjá Sound Diffusion í Englandi, og sá um viðhald á stjórnkerfi Hitaveitunnar áður en hún réð til sín tæknifræðing og síðar verkfræðing til að sjá um eftirlitið.

Þessi kerfiráður var á margan hátt sérstakur, enda var hann framleiddur á fyrstu dögum stafrænu tækninnar. Fjarstýriaðgerðir voru með veljaraliðum af sömu gerð og notaðir voru áður fyrr í símstöðvum, en flutningur mæligagna frá útstöðvum var stafrænn. Flest hlið í rökrásum voru smíðuð úr transistorum, þó svo einstaka einföld samrás væri notuð. Segja má að tæknin sem notuð var hafi náð yfir þrjár kynslóðir, þar sem notaður var mekaniskur búnaður, transistorar og samrásir. Svipaður búnaður var notaður milli lands og Vestmannaeyja til að fjarstýra dælum Vatnsveitu Vestmannaeyja, sem voru uppi á landi. Radíóhlekkur sá um að flytja merkin.

Iðntölvuskápur í Járnblendiverksmiðjunni

Iðntölvuskápur í Járnblendiverksmiðjunni

Rafagnatækni hannaði hluta stjórnkerfis Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og skrifaði forrit iðntölvanna sem stjórna ofnum og neyðarrafmagni þegar verksmiðjan var stækkuð 1979. Rafafl smíðaði stjórnskápana. Verkið var boðið út á sínum tíma og reyndust Rafagnatækni ásamt Rafafli vera með hagstæðara tilboð en erlendir aðilar, svo og betri lausn.

Rafagnatækni smíðaði um 300 örtölvustýrð staðstýribox fyrir kerskála ÍSAL, og hefur einnig framleitt yfirspennuverndarbúnað fyrir ÍSAL og álver erlendis.

RT ehf- Rafagnatækni hefur þróað sérhæfðan mælibúnað fyrir skautasmiðjur álvera.

Rafagnatækni hannaði allan stjórnbúnað gufuveitu Kröfluvirkjunar.

Stjórnskápur gufuveitu Kröfluvirkjunar

Stjórnskápur gufuveitu Kröfluvirkjunar

Þetta var á þeim árum sem Krafla vaknaði af værum blundi. Röð eldgosa gerði mönnum lífið leitt, og upp úr borholum kom brennnisteinssýra og jafnvel bráðið hraun. Gufuholur voru óstöðugar og smíðaði Rafagnatækni m.a. búnað til að mæla rakainnihald í gufu. Mæliaðferðin byggði á mismunandi hegðun þurrar og mettaðarar gufu (Mollier).

Fyrirtækið hannaði stærstan hluta stjórnbúnaðar allra orkuveranna í Svartsengi og á Reykjanesi. Í orkuverunum og dreifikerfinu er nýjasta tækni notuð. Ljósleiðarar flytja merkin innanhúss og um nánast allt Reykjanesið. Iðntölvur eru mikið notaðar og forritaði RT-Rafagnatækni iðntölvur stærstu orkuvera HS-Orku: Orkuvers-5, Orkuvers-6 og Reykjanesvirkjunar, auk fjölda dælustöðva.

Skjágæslukerfið (P-CIM / PULSE), sem tengt var yfir 50 útstöðvum með um 20.000 mælipunktum, var með hundruð mismunandi skjámynda. Þetta var eitt stærsta skjágæslukerfi landsins, og fylgdist það með framleiðslu og dreifingu á heitu vatni og rafmagni. Útstöðvar eru bæði í Svartsengi og vítt og breitt um Reykjanesskagann, jafnvel Hafnarfirði. RT-Rafagnatækni sá um uppsetningu þess og forritun ásamt starfsmönnum HS-Orku.

ov5-stjornherb

Stjórnstöð Orkuvers 5 í Svartsengi

Myndin sýnir stjórnherbergi Orkuvers 5 í Svartsengi, sem gangsett var 1999-2000. Lengst til hægri eru skápar með Siemens S7 iðntölvum. Fyrir miðju eru tvær ljósgráar mosaik stjórntöflur; önnur fyrir háspennukerfið og hin gufuveitu, varmaskiptarásir og hverfil. Aftarlega sést grágræn stjórntafla 30MW Fuji hverfilsamstæðunnar. Þetta orkuver er eins og önnur orkuver HS-Orku keyrt mannlaust með hjálp tölvutækninnar.

Reykjanesvirkjun

Reykjanesvirkjun (Myndin er fengin hjá HS-Orku)

Myndin hér að ofan er af Reykjanesvirkun, sem er 100 MW jarðvarmaorkuver. RT-Rafagnatækni hannaði allt stjórnkerfi virkjunarinnar, deilihannaði skápa og lagnir, forritaði iðntölvur og skjákerfi. Hannaði fjarskiptalagnir innanhúss og utan, þar með talið háhraða jlósleiðara í háspennulínu áleiðis til Svartsengis.  (Bæta við texta hér og myndir).

RT ehf – Rafagnatækni hefur unnið að uppsetningu stjórnkerfis Vatnsveitu Hafnarfjarðar og Vatnsveitu Suðurnesja.

 

Fjarskiptakerfi

RT ehf – Rafagnatækni var aðalhönnuður IP borgarnets Orkuveitu Reykjavíkur og hafði umsjón með lagningu og tengingu ljósleiðara, svo og örbylgjuhlekkja.

Grunnnet Gagnaveitu Reykjavíkur

Grunnnet Gagnaveitu Reykjavíkur eins og það var hannað af RT-Rafagnatækni

Í grunnneti eru samtals um 220 km 96-leiðara strengir og 50 km í aðgangsleggjum. Dreifsitöðvar (spennistöðvar) Orkuveitu Reykjavíkur, sem mynda hnútapunkta í grunnnetinu, eru um 320 talsins.Auk þess liggur strengur alla leið til Vestmannaeyja.

RT ehf – Rafagnatækni kom að hönnun á fyrsta ljósleiðarakerfi Hitaveitu Suðurnesja árið 1989, sem nær nánast um allt Reykjanesið. Grunnhraði netsins var þó aðeins 32 Mb/s, svo að afkastagetu kerfisins voru nokkur takmörk sett. Ljósleiðarakerfið var notað til að tengja saman tölvukerfi HS í orkuverunum og skrifstofunni, tengja saman símakerfin og til að tengja iðntölvur og liðaverndareiningar við kerfisráð orkuveranna. Síðar var ljósleiðarakerfi HS eflt og útvíkkað, og nú með öllu meiri hraða, eða 1 Gb/s. Ljósleiðarar eru nú notaðir þar fyrir flest öll fjarskipti, bæði innan húss og utan.

RT ehf – Rafagnatækni hefur hannað og sett upp ýmsar aðrar fjarskiptaleiðir fyrir fjarmælingar, ýmist um ljósleiðara, radíó eða símastrengi.

RT ehf – Rafagnatækni hannaði og smíðaði útleiðsluvaka fyrir Landssímann, en hann er notaður til að vakta langa ljósleiðarastrengi milli landshluta og gefa viðvörun við bilun.

Í samstarfi við Rafiðn hannaði RT ehf – Rafagnatækni svokallaða Símboða og Vaktboða, sem notuðu almenna símakerfið til að senda viðvörunarboð í mæltu máli.

 

Steinefnaiðnaðurinn

RT ehf – Rafagnatækni þjónaði um alllangt skeið steinefnaiðnaðinum. Fyrsta verkefnið hefur væntanlega verið eigintíðnimælir fyrir steinsteypurannsóknir hjá Rannsóknarstofnum Byggingariðnaðarins, sem smíðaður var á fyrstu árum fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur hannað og forritað vogar- og blöndunarkerfi fyrir helstu steypustöðvar hér á landi. Í fyrstu kerfunum voru notaðar sérsmíðaðar örtölvur, en öflugar iðntölvur hin síðari ár.

 

Sjávarútvegurinn

RT ehf – Rafagnatækni þjónaði um alllangt skeið sjávarútveginum.

R+R Hitaritinn var hannaður og framleiddur í samstarfi við Rafiðn.

Hitariti, síriti fyrir skip og frystihús

Hitariti, síriti fyrir skip og frystihús

Þetta er öflugur 4 til 10 rása síriti með innbyggðum skjá, sem skráir mæligildi í tölvuminni. Hann er notaður í flestum frystihúsum á Íslandi, fjölmörgum íslenskum skipum og víða erlendis. R+R Brunaboðinn er fyrir lítil skip og var framleiddur í samstarfi við Rafiðn.

Stöðugleikavaktin er þróuð hjá RT ehf, og vernduð með einkaleyfi. Þorvaldur á allan heiðurinn af þessum búnaði

Stöðugleikavakt

Stöðugleikavakt

Búnaðurinn reiknar út stöðugleika skipa í rauntíma, skynjar breytingar og varar við ef stöðugleikinn minnkar, t.d. vegna leka, rangrar hleðslu eða ísingar. Stöðugleikavaktin hefur reynst mjög áreiðanlegt tæki.

RT ehf – Rafagnatækni þróaði sjálfvirkan ferskleikaflokkara fyrir fisk, svo og ferskleikamæla.

Ferskleikamælir

Ferskleikamælir

Gerðar eru um 100 mælingar á fisknum og ástand hans metið. Áreiðanleiki reyndist verulega betri en hjá fiskmatsmönnum við könnun sem Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins gerði.

RT ehf – Rafagnatækni hefur unnið með Siglingastofnun, bæði við þróun tækjabúnaðar fyrir öldulíkön hafnarmannvirkja og rannsóknir á stöðugleika skipa.

Rafagnatækni hannaði og smíðaði gæslukerfi fyrir Laxeldisstöðina við Mógilsá fyrir nokkrum áratugum.

 

Rannsóknar- og þróunarstörf

RT ehf – Rafagnatækni var með eigin rannsóknarstofu og átti gott þróunarkerfi fyrir örtölvur og prentrásargerð, auk fjölda nákvæmra kvörðunartækja.

 

Örtölvubyltingin

Rafagnatækni kom sér upp þróunarkerfi fyrir örtölvur strax á fyrstu árum þessarar nýju tækni eða um 1976. Keypt var “kit” frá fyrirtækinu SWTP (South West Technical Products) og sett saman. Þetta var ein fyrsta einkatölvan hér á landi.

Fyrsta tölva fyrirtækisins árið 1976

Fyrsta tölva fyrirtækisins árið 1976. Hún var frá South West Technical Products, en diskettustöðin, með tveim 80 kB 5 tommu diskum var frá fyrirtæki með hinu skemmtilega nafni Smoke Signal Broadcasting.

Ekki gekk alveg þrautalaust að gangsetja tölvuna vegna hönnunargalla í henni. Með þrautsegju tókst Birni þó að fá hana til að vinna rétt. SWTP er fyrir löngu horfið af sjónarsviðinu. Enginn hugbúnaður fylgdi í fyrstu, og þurfti því að nota vélamál. Tækjabúnaðurinn var notaður til að þróa forit fyrir örtölvur af gerðinni MC6800. Það er skemmtilegt að skýra frá því, að  þessi aldarfjórðungs gamli tölvubúnaður var til skamms tíma í gangi, því sum tæki sem hönnuð voru á fyrstu árum örtölvutækninnar voru lengi í notkun, og því nauðsynlegt að geta þjónað þeim þegar óskir komu um breytingar.

Meðal fyrstu verkefna var þróun á sjálfvirkum staðstýriboxum fyrir ÍSAL, en yfir 300 kerfi voru smíðuð. Þessum tækjum var komið fyrir við öll kerin, og gripu þau inn ef miðlægu tækin brugðust. Álagsstýrikerfi Rafveitu Hafnarfjarðar frá þessum fyrstu árum örtölvutækninnar var lengi í notkun. Kerfið var að öllu leyti smíðað og þróað hjá Rafagnatækni.

Laxateljari

Laxateljari

Rafagnatækni framleiddi fjölmarga örtölvustýrða laxateljara, sem notaðir voru í laxastigum og jafnvel opnum árfarvegi. Teljarinn skráði fjölda laxa sem syntu upp eða niður, stærð og hraða.

Önnur dæmi um örtölvustýrð rafeindatæki sem RT ehf – Rafagnatækni hefur hannað á síðustu árum:

Slitmælitæki Vegagerðar ríkisins, en þar er leysigeisli notaður sem viðmiðun fyrir servókerfi, og en mæligögn eru skráð jafnóðum í flash-minniskubb. Lengi vel var slit vega mælt árlega með þessum mæli.

Hitariti þar sem tölvuminni og skjár kemur í stað pappírs og bleks. Hitaritinn er notaður í öllum helstu frystihúsum á Íslandi og víða erlendis, auk þess sem hann er notaður í fjölmörgum innlendum og erlendum skipum.

Stöðugleikavakt, sem beitir flóknum rauntímareikningum til að mæla stöðugleika skipa úti á sjó.

Orkumælar, sem mæla orkuinnihald heita vatnsins og flokka notkun í mismunandi gjaldflokka, t.d. þar sem snjóbræðsla er notuð..

 

Hugbúnaður

RT-Rafagntækni fékkst við hugbúnaðargerð frá um 1974. stodugleikagreinirFyrstu verkefnin voru forritun iðntölvu fyrir Járnblendiverksmiðjuna og örtölvustýrðra staðstýriboxa fyrir ÍSAL. Síðan var fengist við fjölda hugbúnaðarverkefna á sviði örtölvukerfa, iðntölvukerfa og fjargæslukerfa.

 

Rafiðn

Fyrirtækið átti farsælt samstarf við Rafiðn í Reykjavík, en Rafiðn sérhæfði sig í samsetningu rafeindatækja. RT ehf – Rafagnatækni hannaði og forritaði rafeindabúnaðinn, svo og teiknaði prentrásir, en Rafiðn hannaði útlit og sá um framleiðslu.

 

Tímamót og framtíðin

Fyrirtækið hafði ávallt haft yfir að ráða fjölhæfu starfsfólki, sem tök kunni á tækninni og hafði fræðin á hreinu. Starfsmenn RT ehf – Rafagnatækni kunnu því vel til verka og voru óhræddir við að gera hið ómögulega mögulegt…

Árið 2008 urðu merk tímamót í starfsemi RT-Rafagnatækni, því það sameinaðist nokkrum öðrum verkfræðistofum: VST, Rafteikningu, Fjarhitun, Fjölhönnun og síðar Almennu verkfræðistofunni. Nýja fyrirtækið heitir Verkís og getur rekið sögu sína samfellt aftur til ársins 1932 er Sigurður Thoroddsen stofnaði verkfræðistofu sína. Verkís er því elsta verkfræðistofa landsins og ein sú stærsta með yfir 300 starfsmenn. Logo-upphleypt-standandi

 

— — —

Myndasafn:

Mynd segir meira en þúsund orð. Hér fyrir neðan er reiknað með að komi safn mynda frá ýmsum tímum…