Gunnlaugur H Jónsson eðlisfræðingur: Þróun hitastigs í eina öld…

Grein eftir Gunnlaug H Jónsson eðlisfræðing í fréttablaðinu 13. febrúar 2020

 

Ársmeðalhiti í eina öld á Stórhöfða, Reykjavík og Stykkishólmi,

 

Veðurstofa Íslands var stofnuð 1. janúar 1920 og er því 100 ára í ár. Af því tilefni er rétt að líta yfir farinn veg og þróun veðurfars á Íslandi í eina öld. Oft er sagt að það þurfi að kanna fortíðina til þess að gera sér grein fyrir því sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Hitastig er sá þáttur í veðurfari sem mest er rætt um á þessum tímamótum. Þessi grein fjallar um þróun hitastigs í eina öld í höfuðstaðnum Reykjavík auk Stykkishólms og Stórhöfða sem eiga sér lengsta sögu samfelldra hitamælinga á Íslandi. Þá er hugað að því hvað gerist ef þróunin verður óbreytt næstu 100 árin.

Til þess að setja breytingar á hitastigi í samhengi eru hér nokkrar staðreyndir um breytingar á hitastigi jarðarinnar í tíma og rúmi. Mesti mældur hiti á Íslandi, 30,5°C, er talinn hafa mælst fyrir 80 árum 22. júní 1939 á Teigarhorni en sá lægsti mældist 21. janúar 1918 á Grímsstöðum og Möðrudal á Fjöllum -38°C. Mismunurinn er 68,5°C. Á liðnu ári mældist hæsti hiti í Reykjavík 21,1°C en sá lægsti -12,1°C. Mismunurinn er 33,2°C. Mesti hiti sem hefur mælst á landi í heiminum er 56,7°C mældur 10. júlí 1913 í Furnace Creek í Californíu en sá lægsti −89.2°C þann 21. júlí 1983 á Suðurskautslandinu. Mismunurinn er 145,9°C. Þeim mun víðar sem við förum í tíma og rúmi þeim mun meiri líkur eru á því að finna hitastig sem víkur langt frá meðalhita jarðarinnar sem er nú talinn vera um 15°C. Árið 1960 fyrir 60 árum, samkvæmt bestu vitneskju þess tíma, var meðalhiti jarðarinnar líka talinn vera 15°C.

Meðfylgjandi tafla gefur tölulegar upplýsingar um ársmeðalhita í 100 ár í Reykjavík, Stykkishólmi og á Stórhöfða. Tölurnar eru fengnar með úrvinnslu á upplýsingum af vef Veðurstofunnar. Eins og við er að búast er hlýjast á Stórhöfða
sem er syðst en kaldast í Stykkishólmi sem er nyrst og munar 1,2°C. Staðalfrávik í meðalhita eru 0,70°C í Stykkishólmi, 0,66°C í Reykjavík en aðeins 0,56°C á Stórhöfða, sem er umlukinn hafi.

Meðfylgjandi mynd sýnir þróun hitastigs á ofangreindum þrem stöðum síðustu 100 árin. Á myndinni má sjá mikla hlýnum fyrstu 14 árin frá 1919 til 1933. Eftir það stóð hitinn nokkurn veginn í stað til ársins 1960. Á þessu hlýja tímabili fór ársmeðalhitinn á Stórhöfða fimm sinnum yfir sex gráður. Eftir 1960 hefur hann aðeins þrisvar farið yfir sex gráður á Stórhöfða og einu sinni í 6,1°C í Reykjavík árið 2003 en það var hlýjasta árið á 100 árum. Meðalhiti stöðvanna þriggja var 5,9°C það ár. Næst hlýjasta árið var árið 1941 þegar hitinn var að meðaltali 5,8°C. Það liðu því 62 ár það til meðalhitinn frá 1941 var sleginn um 0,1°C.

Eftir 1960 kólnaði og þrjátíu ára tímabilið 1931 til 1960 var að jafnaði 0,6°C hlýrra en tímabilið 1961 til 1990. Á þessu kuldatímabili gengu jöklar á Íslandi fram og á áttunda áratugnum voru mestu hætturnar sem steðjuðu að mannkyninu taldar vera kjarnorkuógnin og næsta ísöld. Eftir aldamótaárið 2000 hefur hlýnað aftur. Veðurstofan hefur til skamms tíma notað þetta kalda tímabil til samanburðar við líðandi ár.

Nú telja margir að mesta ógnin sem steðjar að jörðinni og mannkyni sé hlýnun jarðar. Í töflunni eru sýndar hallatölur fyrir bestu línur sem falla að hitaferlum síðustu 100 ára. Hallatölurnar sýna árlega hlýnun sem nemur þúsundustu hlutum úr gráðu á ári. Á einni öld nemur hlýnunin 0,25°C á Stórhöfða, 0,36°C í Reykjavík og 0,57°C í Stykkishólmi. Hlýnun á einni öld er því minni en sem nemur sveiflu í meðalárshita (staðaðalfrávik) þessara stöðva. Haldi þessi þróun í veðurfari áfram óbreytt næstu 100 árin til 2120 má vænta þess að meðalhiti í Reykjavík fari úr 4,8°C og verði 5,4°±0,7°C árið 2120. Mannvirki og malbik í stórborginni London valda því að hiti er þar 2-3°C hærri en í sveitunum í kring. Uppbygging höfuðborgarsvæðisins og aukin trjárækt mun líklega hækka væntan hita í Reykjavík í framtíðinni um allt að eina gráðu til viðbótar. Stórhöfði er ekki líklegur til þess að byggjast í framtíðinni og er því einstakur staður á Íslandi til þess að mæla langtímabreytingar á hitastigi enda með mælingar frá 1869. Þær mælingar sýna að hlýnunin var mun hraðari á tímabilinu 1869-1919 (0,71°C á öld) en á liðnum hundrað árum eftir að koltvísýringur í andrúmsloftinu fór að aukast verulega.

P.S. Vil kvarta yfir því við Veðurstofuna að meðalárshitatölur fyrir tímabilið 1931-1948, sem var hlýtt tímabil, eru ekki aðgengilegar eins og áður. Taflan sem áður hófst árið 1931 hefst nú árið 1949 ?? sem var óvenju kalt ár, það kaldasta á tímabilinu 1922 til 1966! Hvaða rök eru fyrir þessari breytingu?

 

Gunnlaugur H. Jónsson er eðlisfræðingur.

(Leturbreytingar: áhb – www.agust.net )