Skógrækt betri en “endurheimt votlendis”…?

Hér var áður votlendi. Nú er það fallegur sjálfsáður skógur.

Hér var áður votlendi. Nú er það fallegur sjálfsáður skógur.

Oft hefur mér komið til hugar að “endurheimt votlendis” með því að fylla í skurði sé ekki endilega rétt aðferð til að minnka losun koltvísýrings.

Annar möguleiki til að binda kolefni, og jafnvel betri, er að rækta skóg á landinu, eða einfaldlega friða það og leyfa sjálfsáðum trjáplöntum að vaxa.

Á myndinni efst á síðunni má sjá hvernig fyrrum votlendi hefur gerbreytt um svip á fáum áratugum. Þarna var landið ræst með mörgum skurðum, en hefur lengi verið laust við ágang hesta og kinda. Svona skógur er væntanlega duglegur að binda koltvísýring og auðvitað miklu fallegri en einhver dýjamýri. Þarna hefur engu verið plantað. Allt er sjálfsáð.

Landið er ofarlega í uppsveitum og er alllangt síðan landið var þurrkað með skurðgreftri. Á myndinni hér fyrir neðan sjást þessir skurðir og hvernig myndin var tekin til vesturs.

Til þess að flýta fyrir að skógur vaxi upp nánast af sjálfdáðum mætti planta fáeinum birkiplöntum hér og þar, jafnvel aðeins 100 stk. í hvern hektara, þ.e. um 10 metrar milli pantnanna. Eftir nokkur ár fara þessi tré að bera fræ og verða frælindir. Sjálfsáðar plöntur fara að skjóta upp kollinum vítt og breitt. Á fáeinum áratugum verður birkiskógurinn þéttur og fallegur. Þetta kostar lítið sem ekkert, eða þrjá bakka af birkiplöntum í hvern hektara. Um 15.000 krónur kosta plönturnar samtals. Auðvitað verður einnig að girða landið fjárheldri girðingu.

Að sjálfsögðu má planta þéttar, nota fleiri tegundir en birki og jafnvel stunda formlega skógrækt. En til að koma til meira og minna sjálfsáðum skógi þarf litla fyrirhöfn. Fyrst og fremst þarf að friða landið og girða, og tryggja að frælindir skorti ekki.

Síðan er auðvitað einfalt að flétta svona birkiskóg við votlendissvæði með því að fylla í skurði í hluta landsins. Þannig má fara bil beggja og tryggja fjölbreytt fugla- og plöntulíf ásamt skjólgóðum skógi.

Skurðakerfið leynir sér ekki.

Skurðakerfið leynir sér ekki.  Samkvæmt mælingu eru að meðaltali 43 metrar milli skurða (frá miðju skurðar í miðju, samtals 300 metrar mælt yfir 7 bil). 

Fengið að láni úr Skógræktarritinu 2019, 1.tbl.

 

Veltum þessu fyrir okkur:
Hve lengi losar mýri sem hefur verið þurrkuð CO2?  Að því hlýtur að koma að órotnuðu jurtaleyfarnar í fyrrum mýrinni hafi að mesu rotnað og breyst í frjósama gróðurmold. Það tekur ekki mjög langan tíma. Eftir það er losunin ekki meiri en frá venjulegum úthaga og þörfin fyrir að endurheimta votlendið til að minnka losun á CO2 þá engin. Árangur af því bleyta upp þannig land gæti hæglega verið enginn sé horft til losunar á CO2.

Ekki er ólíklegt að losun þurrkuðu mýrarinnar fylgi veldisfalli eins og algengt er í náttúrunni. Losunin væri þá mest í byrjun, en færi hratt minnkandi. Ef til vill er hún orðin óveruleg eftir fáeina áratugi.

Að bleyta upp land sem breyst hefur úr mýrarjarðvegi í frjósaman jarðveg hefur því ef til vill ekki nokkurn tilgang. Það hjálpar auðvitað ekkert að stöðva losun sem af náttúrulegum ástæðum er orðin lítil sem engin.

Svo má ekki gleyma því, að þó að blautar mýrar losi ekki nema takamarkað af CO2, þá losa þær metan. Metan er um 25 sinnum virkara gróðurhúsagas en koltvísýringur, svo það kann að vera að fara úr öskunni í eldinn að bleyta upp land til að endurheimta votlendi!

Nokkrar spurningar sem menn kunna vafalítið svar við:

  1. Hve mikil er árleg losun CO2 pr. hektara fyrst eftir skurðgröft miðað við dæmigerða mýri?
  2. Hvað ætli árleg losun CO2 sé eftir 10 ár?  20 ár? 30 ár?
  3. Eftir hve langan tíma frá því skurðir voru grafnir er losun á CO2 orðin óvera miðað við það sem hún var fljótlega eftir skurðgröft?
  4. Hve mikið minnkar losun CO2 eftir bleytingu?
  5. Hve mikið bindur skógur pr. ha. sem plantað er í þurrkað land?
  6. Er víst að bleyting eða endurheimt votlendis sé árangursríkari en skógrækt á sama stað?   
  7. Hver mikil eru áhrif útstreymis metans frá blautum mýrum á hlýnun miðað við útstreymi CO2 frá þurrkuðum mýrum?
  8. Getur verið, að þegar landi sem þurrkað hefur verið upp fyrir nokkrum áratugum er breytt í mýri aftur, að þá fari í gang losun metans sem er skæðari valdur hlýnunar en útstreymi koltvísýrings sem var orðið lítið? (Sem sagt, farið úr öskunni í eldinn).
  9. Víða er jarðvegurinn þar sem mýrlendi er að töluverðu leyti úr ólífrænum efnum, t.d. blandaður eldfjallaösku og vikri, og jafnvel áfoki frá uppblæstri á hálendinu. Þannig gæti til dæmis verið ástatt um votlendið Almenning skamt frá Geysi, en jarðvegur þar rétt norðar er ófrjór af þessum sökum. Þannig mýrlendi getur ekki losað mikið CO2 við þurrkun. Hefur þetta verið tekið með í útreikningum?
  10. Hve stór hluti bænda og landeigenda er tilbúinn að fórna þurrlendi í þeirra eigu, en þeir fá ekki greitt nokkurn skapaðan hlut fyrir landið?

 

Fáir virðast kunna svar við þessum spurningum, sem þó eru grundvallaratriði í umræðunni um laoftslagsmál.

“Samkvæmt gögnum Landgræðslu ríkisins bindur sunnlensk lúpínubreiða að meðaltali 5 tonn CO2 á hektara og ári. Á þurrari og kaldari svæðum landsins er bindihraðinn eitthvað lægri”.

“Samkvæmt gögnum Skógræktarinnar nemur meðalbinding í öllu ræktuðu skóglendi á Íslandi (óháð trjátegund eða landshluta) um 10 tonnum CO2 á ha og ári (7,7 í trjánum sjálfum og svo 2,3 í jarðveginum). Hraðvaxnar tegundir á kostalandi (s.s. í jarðvegi sem lúpínan hefur umdirbúið) geta bundið mun meira en þetta meðaltal gefur til kynna, sennilega upp undir 30 tonn/ha/ár”.

(Aðalsteinn Sigurgeirsson. FB  2018-08-08)

 

Fullyrðingar hugsanlega stórlega ýktar um stærð mýra og losun á koltvísýringi.

Dr. Þorsteinn Guðmundsson, sem hefur m.a. starfað sem prófessor í jarðvegsfræði við Land­búnaðarháskóla Íslands, og dr. Guðni Þorvaldsson, pró­fessor í jarðrækt við LbhÍ, telja endurheimt votlendis í stórum stíl kunni að vera stórlega ofmetin leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Telja þeir ýmsa skekkjuvalda orsaka það að mat á losun gróðurhúsalofttegunda úr íslenskum mýrum kunni að vera rangt. Rannsóknir skorti auk þess sem ekki gangi að taka erlenda staðla og heimfæra þá beint upp á afar misjafnar aðstæður á Íslandi… …

Sjá meira hér í Bændablaðinu.

 

Framræst land nú áætlað 70 þúsund hekturum minna en áður var talið.
Jón Guðmundsson, lektor við LbhÍ

Losun stendur aðeins yfir í 50 ár

Í meistararitgerð Gunnhildar Evu Gunnarsdóttur við Háskóla Íslands  frá 2017 var reynt að meta losun kolefnis í þurrkuðum mýrum. Niðurstöður hennar benda til að losun sé mest fyrstu árin en sé síðan hlutlaus að 50 árum liðnum. Það er ekki í samræmi við þær viðmiðunartölur sem yfirvöld á Íslandi styðjast við í sínum aðgerðaráætlunum. Það þýðir væntanlega að losunartölur geti verið stórlega ýktar og mokstur í stærstan hluta skurða á Íslandi kunni því að þjóna litlum sem engum tilgangi. Jarðraskið sem af því hlýst gæti hinsvegar allt eins  leitt til aukinnar losunar”.

Sjá meira hér í Bændablaðinu.

 

 

 

Helmingunartími losunar koltvísýrings úr mýri sem sem þurrkuð hefur verið með skurðgreftri

 

Flestir efnaferlar varðandi niðurbrot fylgja veldisfalli. Sama gildir um fjölmörg fyrirbæri í náttúrunni. Losun CO2 úr framræstu mýrlendi fylgir væntanlega einnig veldisferli. Losunin  er mest í byrjun, en fellur síðan nokkuð hratt.

Helmingunartími er skilgreindur sem tíminn þar til losun á tímaeiningu (t.d. á ári) er komin niður í helming af því sem hún var í byrjun. Ef helmingunartíminn varðandi losun á CO2 úr framræstri mýri er 10 ár, þá er árleg losun komin niður í fjórðung eftir 20 ár, 12% eftir 30 ár og 6% eftir 40 ár.

Sem sagt, eftir fáeina áratugi er árleg losun orðin óvera miðað við að helmingunartíminn sé 10 ár.

Það er því ekki nóg að áætla augnabliksgildið á losun CO2 úr framræstum mýrum. Við þurfum að þekkja það sem fall af tíma og þar með helmingunartímann (eða tímastuðulinn ef það hentar betur) við dæmigerðar íslenskar aðstæður. Þá fyrst getum við farið að ræða af viti um það hvort vit sé í að bleyta upp framræst land.

Helmingunartíminn er grundvallaratriði sem nauðsynlegt er að þekkja nokkurn vegin, því árangur af því að bleyta upp gamla þurrkaða mýri er lítill sem enginn

Hver ætli helmingunartíminn sé? Ætli 10 ár sé fjarri lagi?

70 ára gamlir skurðir:
Um miðjan nóvember 2018 var ítarleg umfjöllun um endurheimt votlendis í Kveik Ríkissjónvarpsins.

http://www.ruv.is/kveikur/endurheimt-votlendis/

Meðal annars var viðtal við Sigurbjörn Hjaltason, bónda á Kiðafelli í Kjós sem hefur verið að fylla í skurði. Tilgangurinn er endurheimt votlendis.

Í Kveik kom fram að “Skurðirnir sem Sigurbjörn hefur unnið að því að fylla upp í eru frá um 1950…”

Það eru sem sagt 70 ár síðan þessir skurðir voru grafnir. Hve langt skyldi umbreyting jarðvegsins úr mýrarjarðvegi í “venjulega” mold vera komin, þ.e., hve mikið hefur losun CO2 á tímaeiningu og flatareiningu minnkað á þessum 70 árum? Getur verið að losun CO2 sé að mestu lokið?

Blautt land (mýri) losar metan. Getur verið að landið með fyrrverandi 70 ára skurðum fari að losa metan aftur þegar búið er að bleyta það upp? Er þá etv. verið að fara úr öskunni í eldinn, en hafa má í huga að metan er 25 sinnum áhrifameira sem gróðurhúsagas en koltvísýringur.

 

Samantekt:
Mýrar losa metan sem er 20 sinnum virkara gróðurhúsagas en koltvísýringur sem losnar meðan jurtaleyfar í þurrkuðum mýrum rotna og breytast í mold. Losun metans minnkar, en losun koltvísýrings eykst tímabundið meðan rotnun jurtaleyfa er í gangi. “Tímabundið” er lykilatriði.

Vissulega er magn mælt í kg á hektara metans í blautri mýri minna en koltvísýrings í þurrkaðri mýri fyrstu árin, en hver eru hlutfallsleg áhrif metans í blautri mýri og koltvísýrings meðan umbreytingin er í fullum gangi fyrstu árin og síðan næstu áratugi? Gleymum ekki að taka tímann sem líður með í reikninginn. Hver eru hlutföllin eftir t.d. 20 ár, og síðan eftir 50 ár?  (Allt miðað við upprunalegt ástand, þ.e. losun metans frá óraskaðri mýri).

Svæði sem þurrkuð hafa verið á undanförnum árum eru enn að losa koltvísýring, en eftir því sem tíminn líður minnkar losunin þar til hún verður ekki meiri en frá venjulegum úthaga, þ.e. óveruleg. Þegar það hefur gerst hefur bleyting landsins þveröfug áhrif við það sem ætlunin var vegna losunar metans sem þá hefst. Losun hinnar öflugu gróðurhúsalofttegundar metans fer þá smám saman á fullt og helst þannig um ókomna framtíð.

Hvort er skárra: Tímabundin losun koltvísýrings í fáeina áratugi frá þurrkaðri mýri, eða ótímabundin losun metans um alla framtíð frá bleyttu landi?

Það er eins gott að velta þessu aðeins fyrir sér áður en þurru landi er breytt í mýri í stað þess að rækta þar skóg.

 

Fyllt í skurð við Bessastaði. Skurðurinn er greinilega gamall og landið löngu hætt að losa CO2.
Myndin er fengin að láni af vef RÚV.

Ítarefni:

 

Mýrviður
Rannsóknarverkefni um kolefnisbúskap í framræstum mýrum
https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/myrvidur

MÝRVIÐUR – loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi
https://www.skogur.is/static/files/2014/Fylgiskjal-A.docx

Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi
Dr. Þorsteinn Guðmundsson Dr. Guðni Þorvaldsson
https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/meira-um-losun-grodurhusalofttegunda-ur-votlendi/18770/

 

MYNDBAND:
Sandlækjarmýri, Mýrviður, Árlegur vöxtur

Í Sandlækjamýri í Gnúpverjahreppi (ísland) hefur komið í ljós að asparskógrækt hentar vel í framræsta mýri, betur en flestir vildu meina hér áður. Þar fer fram rannsókn á kolefnisbindingu í asparskógrækt í framræstri mýri. Áætlað er að rannsókninni verði lokið sumarið 2017. Þetta er samstarfsverkefni LBHI (Landbúnaðarháskóli Íslands), HA (Háskóli Akureyrar) og SR Skógrækt ríkisins)

 

MYNDBAND:
Sandlækjarmýri, Mýrviður, sýnatökur

Í Sandlækjamýri í Gnúpverjahreppi (ísland) fer fram rannsókn á kolefnisbindingu í asparskógrækt í framræstri mýri. Áætlað er að rannsókninni verði lokið sumarið 2017. Þetta er samstarfsverkefni LBHI (Landbúnaðarháskóli Íslands), HA (Háskóli Akureyrar) og SR Skógrækt ríkisins).

 

 
http://www.hi.is/~amh1/29.Groourriki.Islands.ppt

http://www.bbl.is/frettir/umhverfismal-og-landbunadur/hve-mikilvaeg-er-kolefnisbinding/15051/

http://www.ruv.is/frett/skograekt-notud-vid-endurheimt-votlendis