Hjarðhugsun manna og hjarðhegðun í dýraríkinu…

Uppphaflega Moggablogg frá febrúar 2011. Sjá hér.
Þessi pistill er vistaður á www.agust.net

 

Hjarðhu

 

Hjarðhegðun í dýraríkinu þekkja flestir og margir eru farnir að greina svipaða hegðun meðal manna, en það þarf ekki að koma á óvart því auðvitað tilheyra menn (konur eru líka menn) dýraríkinu.

Leiðtoginn, forystusauðurinn, leggur línurnar og þeir sem tilheyra hjörðinni samsinna öllu sem hann segir. Það er ekki endilega vísvitandi, heldur hrífast menn með andrúmsloftinu kringum hann, oftar en ekki hugsunarlaust og ómeðvitað. Eitthvað fyrirbæri ræður ríkjum sem límir saman hugsanir og gerðir manna.

Menn í hjörð eru löngu hættir að hugsa á gagnrýninn hátt, og hirð leiðtogans gætir þess vel, að þeir sem fara út af sporinu og spyrja spurninga séu yfirgnæfðir með ýmsum ráðum. Oft er beitt árásum á viðkomandi persónu í stað þess að ræða málstaðinn. Argumentum ad hominem. Þetta þekkja menn vel úr stjórnmálum og jafnvel vísindaheiminum. Þar kallast hóphugsunin hinu fína nafni scientific concensus. Jafnvel virðast sumar opinberar stofnanir bera merki hjarðhegðunar innanhúss, en það þarf ekki að undra. 

Sem betur fer eru til sjálfstæðir einstaklingar sem þrífast illa í hjörð. Það þekkjum við úr íslenskum stjórnmálum og alþjóðlegum vísindum. Einstaklingar sem láta eigin sannfæringu ráða. Oftar en ekki verða þetta brautryðjendur á nýjum sviðum framfara og hugsunar. Hjörðin situr eftir öllum gleymd.

Hjarðhugsun kallast Groupthink á ensku. Hugsanlega mætti einnig nota orðið hóphugsun, en ritaranum þykir fyrra orðið berta. Hugtakið Groupthink er nánast orðið alþjóðlegt og hafa um það verið skrifaðar lærðar greinar, enda er um að ræða stórvarsamt fyrirbæri. Þekktastar eru e.t.v. rannsóknir Irving Janis hjá Yale háskóla.  Groupthink  er eiginlega hugarfar innan mjög samstæðs hóps þar sem meðlimir reyna eftir megni að forðast árekstra og komast að samdóma áliti án þess að beita gagnrýnni hugsun, greiningu og skoðun á hugmyndum.

 

Hér fyrir neðan eru meginatriði hjarðhugsunar sem oft veldur hjarðhegðun dregin saman.

 

Hjarðhugsun – Groupthink

Hjarðhugsun eða Groupthink er hugtak sem vísar til rangrar ákvörðunartöku innan hóps. Hópar, þar sem hjarðhegðun eða groupthink viðgengst, skoða ekki alla möguleika, og meiri áhersla er lögð á samdóma álit en gæði ákvörðunar.  Niðurstaðan verður oftar en ekki röng. Í sumum tilvikum geta afleiðingarnar orðið skelfilegar.

Það er öllum hollt að hugsa um þessi mál og reyna að skilja fyrirbærið og hvað megi gera til að forðast það. Líta í kringum sig og reyna að sjá merki hjarðhegðunar. Hvernig er ástandið í þjóðfélaginu, stjórnmálunum, fjármálaheiminum, vísindaheiminum, vinnustaðnum… ?  Greina, spyrja og ræða…  Taka jafnvel dæmi úr dýraríkinu og gleyma því ekki að við tilheyrum því.   Reyna síðan að láta skynsemina verða hjarðeðlinu yfirsterkari og brjótast út úr hjörðinni. Verða sjálfstæður í hugsun og öðlast þannig virðingu, í stað þess að vera ósýnilegur í stóði.

 

Hagstæð skilyrði til að hjörð myndist:

 • Hætta er á hjarðhugsun þegar meðlimir hóps eru mjög samrýmdir og þeir eru undir miklu álagi að taka ákvörðun um mikilvæg mál. Að hugsa sem hjörð verður þægilegast fyrir alla meðlimi hjarðarinnar.

 

Neikvæð hegðun í hóp þar sem hjarðhugsun viðgengst:

 1. Fáir möguleikar skoðaðir.
 2. Hugmyndir sem koma fram eru hvorki rýndar né ræddar.
 3. Aðrir kostir en varpað hefur verið fram eru ekki skoðaðir.
 4. Slegið er á viðleitni til sjálfstæðrar hugsunar.
 5. Reynsla annarra eða sjálfs hópsins af eldri svipuðum málum ekki skoðuð.
 6. Ekki leitað álits sérfræðinga.
 7. Ekki er reynt að fá utanaðkomandi álit.
 8. Litið er niður til þeirra sem tilheyra ekki hópnum.
 9. Gagnaöflun hlutdræg.
 10. Ekki reiknað með að þörf sé á varaáætlun.

 

Einkenni hjarðhugsunar:

 1. Trú á eigin óskeikulleika.
 2. Trú á eigin siðgæði.
 3. Rangar ákvarðanir réttlættar.
 4. Einföldun vandamála ræður ákvörðun.
 5. Hræðsla við að vera öðru vísi en aðrir í hópnum.
 6. Einstaklingsbundin álit kveðin niður.
 7. Talað niður til þeirra sem ekki tilheyra hjörðinni.
 8. Ad hominem eða persónuníði beitt þegar rök þrýtur.
 9. Hræðsla við að láta raunverulegt álit sitt í ljós ef það er á skjön við samdóma álit hjarðarinnar.
 10. Gefið í skyn að álitið sé samdóma.
 11. Hugsanagæslumenn notaðir til að verja hjörðina frá óheppilegum upplýsingum.

 

Úrbætur til að koma í veg fyrir hjarðhegðun í hóp eru meðal annars:

 1. Fá álit minni hópa eða nefnda sem gefur stærri hóp álit.
 2. Deila stórum hóp í smærri hópa til að ræða sama málefni.
 3. Leiðtogar minni og stærri hópa verða að vera hlutlausir og forðast að gefa út álit.
 4. Nota mismunandi hópa fyrir mismunandi verkhluta.
 5. Skoða alla hugsanlega möguleika.
 6. Leita til sérfræðinga innan hóps og utan og fá þá til að ræða málin á fundum.
 7. Fá einhvern í öllum hópum eða nefndum til að reyna að finna álitinu allt til foráttu og bera fram erfiðar spurningar. Devil‘s advocate aðferðin við gagnrýni virkar vel. Málssvari myrkrahöfðingjans rífur kjaft.
 8. Muna að það ber vott um skynsemi og sjálfsstjórn að geta skipt um skoðun og gengið á móti straumnum.
 9. Sofa vel á álitinu áður en það er gefið út. Halda síðan fund til að leyfa hugsanlega ferskum forsendum og nýrri hugsun að koma fram. Hika þá ekki við að breyta um stefnu ef með þarf.

 

 Hjarðhegðun-hóphugsun-groupthink er stórvarasamt fyrirbæri

Hvaða dæmi þekkir þú um hjarðhegðun í samfélaginu, vísindaheiminum eða annars staðar,
fyrr á tímum eða nú á dögum?

 

 

 

 

Amazon: Irving L Janis; Groupthink.

Á netinu má finna mikið efni um Groupthink. Smella hér.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur: Hugsanir á dósum.

Fróðlegur fyrirlestur

groupthink-2

Hjarðhegðun er hættulegt fyrirbæri 

 

Hjarðhegðun

Sem betur fer eru til einstaklingar með sjálfstæða hugsun