Stefnir í offjölgun ferðamanna? Hvað er til ráða?

Það er ekki laust við að þeir sem kunna að meta óspillta náttúru séu uggandi. Margir ferðamannastaðir eru komnir yfir þolmörk og liggja undir skemmdum. Á næsta áratug er reiknað með að fjöldi erlendra ferðamanna tvöfaldist. Gangi sú spá eftir er voðinn vís. Hingað til hafa menn verið að reyna að bæta úr með því að leggja göngustíga og trépalla, stækka bílastæði, o.s.frv. en komið hefur í ljós að það nægir ekki. Grípa þarf til annarra ráðstafanna.

Hér verður fyrst reynt að rýna í spár Innanríkisráðuneytisins og ÍSAVIA og skoðað hvað þær geti þýtt. Engin vísindi, bara leikur með tölum til að fá tilfinningu fyrir vandamálinu.

Í lokin er bent á leið sem farin hefur verið erlendis og reynst hefur vel.

Ferdamannaspa 2013-2025

Ferdamannaspa 2013-2025

Heimild

 

Uppfærð spá ISAVIA fyrir 2016:

Uppfærð spá ISAVIA fyrir árið 2016

Uppfærð spá ISAVIA fyrir árið 2016

Í spá ÍSAVIA eru farþegar skemmtiferðaskipa ekki taldir með.

Heimild

Leikur að tölum:

Forsendur;

1) Innanríkisráðuneytið spáði árið 2015, með hliðsjón af tölum fyrir árin 2013-2014, tæplega 1.500.000 ferðamönnum árið 2016.

2) ISAVIA uppfærði nýlega spá sína frá árinu 2015 og spáir nú 1.730.000 ferðamönnum árið 2016. Þessar tölur innihalda aðeins þá sem koma með flugi, en ekki með skemmtiferðaskippum eða Norrænu. ISAVIA spáir sem sagt 15% fleiri ferðamönnum en Innanríkisráðuneytið, auk farþega sem koma sjóleiðina.

3) Innanríkisráðuneytið spáir árið 2025 um 2.800.000 erlendum ferðamönnum. 

4) Sé miðað við uppfærða spá ISAVIA og spá Innanríkisráðuneytisins fyrir árið 2025 má hækka töluna a.m.k. úr 2.800.000 í 3.200.000 erlendra ferðamanna árið 2025.

 

Vangaveltur:

5) Talið er að um 80% erlendra ferðamanna fari Gullna hringinn, eða Þingvelli-Geysi-Gullfoss.   80% af 3.200.000 er um 2.600.000.   Þ.e. árið 2025 má reikna með 2,6 milljón ferðamönnum árlega á Þingvöllum, Geysi og við Gullfoss.

6) Ef við deilum í þessa tölu með 365, þ.e. fjölda daga í árinu, þá fáum við út 7.100 ferðamenn hvern einasta dag ársins sem munu fara Gullna hringinn árið 2025. Þetta er meðaltal allra daga ársins.

7) Segjum að tvöfalt fleiri en meðaltalið komi að sumri til, og helmingi færri en meðaltalið að vetri til. Það gerir um 14.000 erlendra farþega á dæmigerðum sumardegi en 3500 á dag að vetri til. Auðvitað einföldun, en hjálpar okkur við að sjá afleiðingarnar.

8) Hugsum okkur augnablik að allir þessir ferðamenn aki Gullna hringinn með hópferðabílum, og að 50 manns séu að jafnaði í hverjum bíl.  Það gerir 280 hópferðabíla á dag að sumri til og 70 á dag að vetri til.

9) Auðvitað ferðast stór hluti ferðamanna með bílaleigubílum. Reiknum með að 3 farþegar séu að jafnaði í hverjum bíl, og að 2/3 ferðist með hópferðabílum og 1/3 með bílaleigubílum, þ.e. 9.200 ferðamenn með rútum og 4.600 ferðamenn með bílaleigubílum á Þingvöllum, Geysi og Gullfossi daglega yfir sumarmánuðina.  

Umreiknað í fjölda bíla með ferðamönnum jafngildir þetta 180 rútum og 1.500 bílaleigbílum daglega á Gullna hringnum og bílastæðum vinsælustu staðanna hvern einasta dag yfir sumarmánuðina, ásamt 14.000 manns í kös.  

Er þetta ekki nokkurn vegin rétt reiknað?  Við þurfum enga nákvæmni til að sjá í hvað stefnir. Svona einfaldur leikur að tölum nægir.

180 rútur ásamt 1.500 bílaleigubílum daglega yfir sumarmánuðina
á Gullna hringnum árið 2025,  þ.e. Þingvöllum, Gullfossi og Geysi.
Allt að 14.000 ferðamenn daglega árið 2025.

 

(Í Morgunblaðinu 13. september 2016 er þess getið að hópferðabílar séu þá 2200 á númerum, en 2700 alls á skrá. Þar af séu 340 nýskráðir).

Þetta var bara Gullni hringurinn. Álagið á marga ferðamannastaði er þegar komið yfir þolmörk. Ekki bara á þeim sem teknir voru sem dæmi. Gangi spár eftir, þá mun álagið tvöfaldast á næsta áratug.

Auðvitað er þessi leikur að tölum ekki nákvæmur, en gefur kannski hugmynd um hvað getur verið í vændum eftir aðeins áratug, ef spár Innanríkisráðuneytisins og ÍSAVIA ganga eftir…   Er pláss fyrir allan þennan fjölda? 

Það gefur auga leið að mikill fjöldi ferðamanna verður á rölti fram og aftur á flestum ferðamannastöðum, þar sem hver flækist fyrir öðrum. Allt svæðið yrði algerlega stopp vegna öngþveitis og það er ekki bara gatan heldur öll þjónusta, salerni, öryggismál og margt fleira sem færi algerlega úr böndunum…  Hvað verður um blessaða náttúruna? 

Kaos –  Öngþveiti – Niðurtröðkuð náttúra – Fréttir berast út í heim um ömurleikann – Ferðamenn hætta að heimsækja ísland – Ástandið leitar jafnvægis og kemst í sama horf og fyrir aldamót – Hótelin standa sem innantóm minnismerki…

Svo má halda áfram að velta vöngum: Er það alveg víst að álagið á ferðamannastaði vaxi línulega með fjölda ferðamanna? Getur verið að um einhvers konar veldisfall sé að ræða, þannig að heildaráhrifin fylgi fjöldanum í t.d. öðru veldi? Hvað gerist þegar allt er komið í öngþveiti? Það gerist nefnilega oft þegar kerfi nálgast þolmörk, að þau hrynja með látum. Þá nær litla þúfan að velta þungu hlassi.

Hvernig er hægt að hafa stjórn á þessum ósköpum?

Verður ekki að hugsa málin upp á nýtt og finna lausnir sem níðast minna á náttúrunni?

Sums staðar erlendis hefur verið gripið til skynsamlegra ráðstafanna.

Stonehenge er vinsæll ferðamannastaður á Englandi og þangað hafa margir Íslendingar komið. Þegar fjöldi ferðamanna sem heimsótti staðinn árlega var kominn upp í 1 milljón sáu vísir menn að eitthvað þyrfti að gera og að nauðsynlegt væri að koma með ferskar hugmyndir. Niðurstaðan var að reisa ferðamannamiðstöð ásamt bílastæðum í 2,5 kílómetra fjarlægð frá fornminjunum og selflytja ferðamenn þaðan í léttbyggðum vögnum.

Það er vissulega full ástæða til að skoða hliðstæðar lausnir hér á landi.  
Sjá New Stonehenge Visitor Centre Finally Opens.

Víða erlendis hefur verið gripið til hliðstæðra ráðstafanna og við Stonehenge. Það þekkja margir íslendingar sem lagt hafa land undir fót. Bílum ferðamanna verður að leggja drjúgan spöl frá helstu áhugeverðu stöðunum sem ferðamenn þyrpast til. Þaðan verða menn oft að ganga drjugan spöl.

Á Íslandi er vandamálið þegar orðið mun verra en var við Stonehenge þegar gripið var til ráðstafanna þar. Hingað til hafa menn notað smáreddingar sem stundum náð að laga ástandið í fáeina daga. Fyrr en varir kemur í ljós að árangurinn var skammvinnur. Örtröð, kaos og eyðilögð náttúra blasir við. Bílastæði, stundum með hundruðum bíla, eru gerð örskammt frá náttúruminjunum. Þeir sem koma hálfan hnöttinn til að upplifa íslenska náttúru þurfa að rölta um yfirfull bílastæði í reyknum og hávaðanum frá rútum, súperjeppum og bílaleigubílum. Íslendingar eru hættir að heimsækja þessa staði, enda lítið hollt fyrir ungviðið að kynnast þessum ósóma.

Nú þarf að hugsa málið upp á nýtt og hugsa til framtíðar. Ekki bara ár eða tvö, ekki áratug, heldur áratugi. Náttúruminjar sem búið er að skemma með ágangi eru varanalega skemmdar.

Hvað getum við lært af Bretum?

Ferðamannamiðstöðin er 2,5 km frá fornminjunum. Þar eru bílastæði og þjónusta, og þaðan er fólki ekið með skutlum.

Ferðamannamiðstöðin er 2,5 km frá fornminjunum. Þar eru bílastæði og þjónusta, og þaðan er fólki ekið með léttum vögnum sem aka fram og aftur með skömmu millibili. Álagið hefur snarminnkað..

 

Stonehenge Visitors Centre er glæsilegur staður í 2,5 km fjarlægð frá fornminjunum. Þar eru bílastæðin og margvísleg þjónusta. Ferðamönnum er ekið þaðan í léttum vögnum. Staðurinn var tekinn í notkun árið 2013.

Stonehenge Visitors Centre er glæsilegur staður í 2,5 km fjarlægð frá fornminjunum. Þar eru bílastæðin og margvísleg þjónusta. Ferðamönnum er ekið þaðan í léttum vögnum. Staðurinn var tekinn í notkun árið 2013.

Það sem við getum lært af Bretum (og sjálfsagt fleirum) er að til þess að við getum haft einhverja stjórn á þessum málum megum við ekki beina allri umferð ferðamanna að risastórum bílastæðum rétt við náttúruminjarnar og reisa þar minjagripaverslanir, matsölustaði o.s.frv. Allt þetta á að vera í hæfilegri fjarlægð þar sem það fer vel í landslaginu og truflar ekki upplifunina af því sem ferðamenn eru komnir til að njóta. Frá þjónustumiðstöðinni er túristum síðan ekið í fylgd leiðsögumanna  í léttum vögnum að náttúruperlunni.

 Ekki flókið en skilar árangri!

Hættum reddingum. Hugsum áratugi til framtíðar !   Grípum strax í taumana með skynsemi.