Magnús Jónsson fyrrverandi veðurstofustjóri: Rannsóknir í herkví hagsmuna?

Nýlega rifjaðist upp grein sem Magnús Jónsson veðurfræðingur skrifaði í Morgunblaðið árið 1998.
Hugsanlega er eitthvað í greininni sem heimfæra má upp á ástandið núna tveim áratugum síðar


Magnús Jónsson fyrrverandi veðurstofustjóri:  

Grein í Morgunblaðinu 31. október 1998

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson

“…Í hinu flókna þekkingar- og upplýsingasamfélagi okkar er vaxandi hætta á því, segir Magnús Jónsson , að stjórnvöld og leiðandi fyrirtæki knýi vísindamenn til að taka afgerandi ákvarðanir á ófullnægjandi þekkingargrunni….

…Tilefni þessara skrifa minna er í fyrsta lagi umræða okkar nokkurra veðurstofustjóra nýlega um vaxandi pólitískt hlutverk veðurstofa í meintum gróðurhúsavanda.

Í öðru lagi veldur mér áhyggjum sú vaxandi tilhneiging þeirra, sem hafa efnahagslega hagsmuni af því að koma á útblásturskvótakerfi, til að gera lítið úr skoðunum efasemdarmanna og berja þannig niður akademíska hugsun og skoðanaskipti í þessu flókna og tiltölulega lítt þekkta máli.

Þá hefur mér ofboðið meir og meir sú skoðanakúgun sem hér hefur vaxið utan um fiskveiðistjórnunarkerfið og forsendur þess...”

Rannsóknir í herkví hagsmuna?

Það eru þekkt sannindi að valdhafar allra tíma hafa reynt með ýmsum ráðum að hafa áhrif á skoðanir vísindamanna, þekkingarleit þeirra og rannsóknaniðurstöður. Fyrir aðeins fáum árum viðurkenndi t.d. kaþólska kirkjan formlega, að jörðin væri hnöttótt og snérist í kring um sólu, andstætt því sem valdhafar hennar héldu fram af mikilli hörku fyrr á öldum. Þá hafa tóbaksframleiðendur nýlega fallist á að reykingar geti valdið krabbameini í lungum. Hér heima mætti nefna að stjórnendur ýmissa sveitarfélaga börðust fyrir fáum árum hart gegn þeim mönnum, sem vildu vekja athygli á hugsanlegri snjóflóðahættu viðkomandi staða. Og margir muna líklega eftir því, að einstaka andmæli gegn uppgræðslu og túngerð í sveitum með skurðgreftri og þurrkun lands, voru talin árás á hagsmuni bænda og andstaða við tækniframfarir. Í öllum þessum tilvikum tókust á pólitískir hagsmunir og vísindarök.

Gróðurhúsavandinn

Síðustu tvo áratugina hafa umræður um svokallaða gróðurhúsaupphitun jarðarinnar orðið æ fyrirferðarmeiri, bæði hér á landi og annars staðar. Meðal vísindamanna voru og eru skiptar skoðanir á þessu máli, bæði hvort um sé að ræða raunverulega og varanlega upphitun jarðarinnar af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (aðallega koltvísýrings), hvernig hún dreifðist yfir jörðina og hvort hugsanleg upphitun væri sá hnattræni vandi sem látið er í veðri vaka. Hafa verður í huga að lengi vel var það skoðun margra vísindamanna, að jörðin væri líklega að fara inn í nýtt ísaldartímabil, sem sannarlega myndi leiða til stórfelldrar röskunar á lífsskilyrðum okkar jarðarbúa. Alveg fram á þennan áratug fóru fram um allan heim opinskáar umræður meðal vísindamanna um þetta mál, en nú á síðustu árum má merkja verulega breytingu hér á. Að hluta til má rekja hana til aukins skilnings manna á eðli málsins, svo og að mörg undangengin ár hafa verið hlýrri en áður hefur mælst síðustu 100 til 150 árin eða svo. Þannig hefur ýmislegt stutt tilgátuna. En einnig vega hér þungt þær heimspólitísku ákvarðanir sem teknar hafa verið. Er nú svo komið, að pólitísk nauðsyn og oft stórfelldir efnahagslegir hagsmunir stórfyrirtækja og heilu samfélagana, allt að því krefjast þess, að þetta sé einhver mesti umhverfisvandi heimsins. Og þegar einstaklingar, fyrirtæki eða þjóðir eiga orðið verðmæta koltvísýringskvóta verða efasemdir um upphitunarvandann barðar niður með alþekktum aðferðum skoðanakúgunar.

Á fundi starfsbræðra minna í V-Evrópu nýlega kom fram, að í kjölfar Kyoto-ráðstefnunnar og stefnumarkandi ákvarðana og skuldbindinga sem þar voru samþykktar, sáu menn fyrir stóraukna þátttöku veðurstofa í ráðgjöf við stjórnvöld. Ég benti á, að þegar svo yrði komið yrðu veðurstofurnar að hafa eina opinbera skoðun á málinu, og hið vísindalega skoðanafrelsi sem áður hefði ríkt innan þessara stofnana um málið heyrði sögunni til. Við slíkar aðstæður yrði t.d. varla hægt að búa við veðurstofustjóra sem hefði aðrar skoðanir en þær sem samræmdust stefnu og hagsmunum stjórnvalda, auk þess sem ein þjóð, stór eða lítil ætti erfitt með að hafa aðra stefnu en þarna var ákveðin. Þegar búið yrði að leggja á koltvísýringsskatta á öllu evrópska efnahagssvæðinu og stærstu iðnfyrirtæki svæðisins hefðu sem helstu tekjulind að framleiða tækjabúnað til þess að farga eða binda koltvísýring í jörðu eða sjó yrðu efasemdarraddirnar þaggaðar niður.

Ofveiðivandinn

Fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi kom fram sú skoðun meðal íslenskra fiskifræðinga að við værum að ofveiða þorsk og fleiri tegundir hér við land. Þessi skoðun kom í framhaldi af miklum breytingum í umhverfi hafsins sem aftur tengdust breytingum á veðurfari Íslands og nálægum svæðum. Um þetta mál voru afar skiptar skoðanir, bæði meðal lærðra utan sem innan Hafrannsóknastofnunar, að ekki sé minnst á sjómenn, alþingismenn og fjölda leikmanna. Á árunum upp úr 1980 fóru fram miklar umræður og skoðanaskipti um rannsóknaraðferðir, áhrif veiða, áreiðanleika stofnmælinga, nýliðun o. fl. Þegar síðan aflamarkskerfið var tekið upp má segja að smám saman hafi myndast “skoðanamúr” í kring um Hafrannsóknastofnun, múr sem nánast hefur verið óvinnandi eftir að frjálsa framsalið var sett á og stjórnvöld og útgerðarmenn sameinuðust í hagsmunagæslunni um fiskveiðistjórnunarkerfið. Engu er líkara en að allt í einu hafi vísindin verið orðin svo þróuð, að öll vafaatriðin sem menn ræddu áður séu ekki lengur til staðar, þegar um fiskifræðina er að ræða. Er nú svo komið að flestar efasemdarraddir eru þagnaðar enda menn úthrópaðir sem sérvitringar, falsspámenn eða jafnvel ábyrgðarlausir óvinir þjóðarinnar. Margir náttúrufræðingar og fleiri sem gagnrýnt hafa forsendur fiskveiðistjórnunarkerfisins eru hættir að þora að láta skoðanir sínar í ljósi þar sem þeir eiga á hættu að missa vinnuna eða verða fyrir öðrum beinum eða óbeinum óþægindum eða jafnvel mannorðsmissi. Svipað er uppi á teningnum þegar minnst er á gagnrýni sjómanna og skipstjórnarmanna á kerfið, þeir fá þá annaðhvort að taka pokann sinn eða koma að læstum stýrishúsum. Til að herða enn á skoðanakúguninni eru ýmsir embættismenn þjóðarinnar og forystumenn útvegsmanna á faraldsfæti um allan heim til að mæra okkar ábyrga fiskveiðistjórnunarkerfi og óskeikulu vísindin sem eiga að hafa byggt upp alla fiskistofna víð Ísland síðan kerfið var sett á!! Þegar síðan auðtrúa útlendingar (oftast hagfræðingar) annaðhvort skrifa greinar eða koma í heimsókn til að lofsyngja yfir okkur eigin útflutning á ritskoðuðum hagsmunagæslusannleikanum þorir varla nokkur maður að segja orð.

Í erlendum greinum les maður öðru hverju gagnrýni vísindamanna á þær rannsóknaaðferðir og ráðgjöf sem fiskifræðingar beggja vegna Atlantshafsins veita. Þekkt eru dæmin frá Noregi, Nýfundnalandi og Færeyjum. Flest bendir til þess að umhverfið sé aðalgerandi í vexti og viðgangi fiskistofna, þótt því sé að sjálfsögðu ekki neitað að hægt er að ofveiða fisk t.d. með ríkisstyrktri ógnarsókn, eins og dæmin sanna frá ýmsum löndum. Nýlega las ég í erlendri vísindagrein, að flest benti til þess að kvótasetning á einstakar fiskitegundir væri beinlínis skaðleg nýtingaraðferð á svæðum þar sem margar fiskitegundir héldu sig. Eðlilegra væri að setja heildarkvóta á svæðið. Og fyrir stuttu var í Sjónvarpinu sýndur kanadískur þáttur um Kyrrahafslaxinn, þar sem leiddar voru líkur að því að það væru nánast alfarið umhverfisskilyrði sem réðu stærð og útbreiðslu stofnsins. Þá varð mér nýlega ljóst, að 25% nýtingarreglan sem sett var á fyrir fáum árum, er ekki fiskifræðileg heldur hagfræðileg og var að mestu ákveðin af hagfræðingum og hagsmunaaðilum kvótakerfisins undir yfirskini fiskverndunar og uppbyggingar fiskistofna.

Öll þessi umræða nær hins vegar lítt út í samfélagið vegna þess að hagsmunagæslumenn hafa komið flestum vísindamönnum inn í skel og barið niður umfjöllun í fjölmiðlum og meðal almennings. Margir þeir sem stundað hafa fiskveiðar áratugum saman á Íslandsmiðum, tjá sig aðeins í lokuðum samtölum, þar sem þeir segjast ekkert skilja í þessum fræðum og eru farnir að halda að öll sú reynsla og þekking sem þeir öfluðu sér sé einskis virði, raunar tóm della. En í ljósi reynslu minnar á skiptum skoðunum á veðurfarsbreytingum á ég afar erfitt með að trúa því að innan Hafrannsóknastofnunar séu ekki ennþá skiptar skoðanir í fiskifræðunum og forsendum þeim sem liggja til grundvallar kvótasetningar á flestar tegundir fiskjar á Íslandsmiðum.

 

Lokaorð

Tilefni þessara skrifa minna er í fyrsta lagi umræða okkar nokkurra veðurstofustjóra nýlega um vaxandi pólitískt hlutverk veðurstofa í meintum gróðurhúsavanda.

Í öðru lagi veldur mér áhyggjum sú vaxandi tilhneiging þeirra, sem hafa efnahagslega hagsmuni af því að koma á útblásturskvótakerfi, til að gera lítið úr skoðunum efasemdarmanna og berja þannig niður akademíska hugsun og skoðanaskipti í þessu flókna og tiltölulega lítt þekkta máli.

Þá hefur mér ofboðið meir og meir sú skoðanakúgun sem hér hefur vaxið utan um fiskveiðistjórnunarkerfið og forsendur þess.

En þetta eru fjarri því nokkur einsdæmi. Læknisfræðin, lyfjafræðin, matvælafræðin, hagfræðin og miklu fleiri fræðigreinar eru fullar af hliðstæðum. Í hinu flókna þekkingar- og upplýsingasamfélagi okkar er hins vegar vaxandi hætta á að stjórnvöld og leiðandi fyrirtæki knýi vísindamenn til að taka afgerandi ákvarðanir á ófullnægjandi þekkingargrunni. Ákvarðanir sem í eðli sínu eru pólitískar og/eða efnahagslegar og geta ráðið miklu um hagsmuni einstaklinga, fyrirtækja, byggðarlaga og jafnvel heilu þjóðfélaganna. Þegar þannig er, verður oft ekki aftur snúið án mikilla átaka og jafnvel hörmunga. Sagan er full af dæmum.

 

Höfundur er veðurstofustjóri.
Magnús Jónsson

 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/428481/

Morgunblaðið 31. október 1998

Morgunblaðið 31. október 1998