Vindstig eða m/s: Hvort skilur almenningur betur…?

haraldur-2
 

Getur verið að margir (flestir) hafi litla sem enga tilfinningu fyrir vindstyrk sem gefinn er upp í metrum á sekúndu?  Getur verið að flestir skilji mun betur gömlu góðu vindstigin?  Getur verið að fæstir geri sér grein fyrir að eyðileggingamáttur vindsins vex mjög hratt með vindhraðanum, miklu hraðar en tölurnar gefa í skyn?   Getur verið veðurfréttir, þar sem vindhraðinn er gefinn upp sem sekúndumetrar fari meira og minna fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum og það bjóði hættunni heim?

Í fersku minni er óveðrið í september 2012.  Ýmsir, þar á meðal einn ráðherra, töldu að ekki hefði verið varað við veðrinu. Það hafði þó verið gert, en svo virðist sem þær aðvaranir hafi ekki komist til skila. Hvernig stendur á því?

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur kom fram í sjónvarpinu eftir að í ljós kom að Ögmundur ráðherra hafði ekki skilið veðurfréttirnar.  Hann birti veðurkort sem sýnt var í veðurfréttum Sjónvarpsins 8. september.  Þar mátti sjá að spáð var um 25 m/s vindhraða skammt norður af landinu.   Veðurfræðingurinn tók fram að það jafngilti 10 vindstigum og við þann vindstyrk rifnuðu tré upp með rótum.    Um leið og hann nefndi 10 vindstig kviknaði ljós hjá mörgum. Nú loks var talað mannamál í veðurfréttunum, en það hafði ekki verið gert árum saman.  – Loksins.

Það er nefnilega svo að við eigum mjög góðan skala yfir vindstyrk, skala sem er miklu meira lýsandi fyrir áhrif vindsins en sekúndumetrarnir sem í  hugum flestra eru bara einhverjar tölur, kannski álíka tölur og hitastigin á kortinu.  

Það eru í raun fáir sem gera sér grein fyrir hve eyðileggingamáttur vindsins vex hratt með vindhraðanum.  Það eru fáir sem vita að við tvöföldun á vindhraða áttfaldast aflið í vindinum.Vindrafstöðvar framleiða t.d. áttfalt meira afl ef vindhraðinn tvöfaldast, 27 sinnum meira ef hann þrefaldast.     Með öðrum orðum, þá er aflið í vindi sem er 24 m/s næstum 30 sinnum meira en aflið í vindi sem er aðeins 8 m/s.

Ég gæti vel trúað því að veðurfréttir kæmust mun betur til skila hjá flestum ef veðurfræðingar og veðurfréttamenn temdu sér að nota vindstig ásamt veðurheitum frekar en sekúndumetra.   Eða öllu heldur, nota gömlu góðu veðurheitin í stað þeirra þriggja orða sem núorðið heyrast nánast eingöngu í veðurfréttum, þ.e. logn, strekkingsvindur og stormur.  Veðurfréttamenn, að minnsta kost þeir sem komnir eru til vits og ára, hljóta að þekkja hin gömlu góðu heiti. Til upprifjunar birti ég hér töflu sem fengin er að láni hér hjá Trausta Jónssyni.

 

Mat vindhraða eftir Beaufort-kvarða

Stig Heiti m/s Áhrif á landi
0 Logn 0-0,2 Logn, reyk leggur beint upp.
1 Andvari 0,3-1,5 Vindstefnu má sjá af reyk, flögg hreyfast ekki.
2 Kul 1,6-3,3 Vindblær finnst á andliti, skrjáfar í laufi, lítil flögg bærast.
3 Gola 3,4-5,4 Breiðir úr léttum flöggum, lauf og smágreinar titra.
4 Stinningsgola 5,5-7,9 Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka, litlar trjágreinar bærast. Lausamjöll byrjar að hreyfast.
5 Kaldi 8,0-10,7 Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum. Lausamjöll hreyfist.
6 Stinningskaldi 10,8-13,8 Stórar greinar svigna. Hvín í línum. Erfitt að nota regnhlífar. Lágarenningur viðvarandi.
7 Allhvass vindur 13,9-17,1 Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi. Skyggni slæmt í snjókomu.
 8 Hvassviðri 17,2-20,7 Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert.
 9 Stormur 20,8-24,4 Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar.
 10 Rok 24,5-28,4 Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.
 11 Ofsaveður 28,5-32,6 Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti.
 12 Fárviðri >= 32,7 Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.

 

Munur á 20 m/s og 30 m/s hljómar ekki mikill (50%), en það er samt gríðarlegur munur á hvassviðri (20 m/s, 8 vindstig) og ofsaveðri (30 m/s, 11 vindstig).     Líklega er það nokkuð sem fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir. Þetta er einmitt kosturinn við vindstigin, tilfinningin fyrir áhrifum vindsins eru meiri.

 

Vindhraðatafla Beaufort-kvarðans er frá 1903, þá var eftirfarandi jafna lögð til grundvallar:

V = 0,836 x B3/2 gefur vindhraða í metrum á sekúndu við miðgildi vindstigsins.Þess má geta að Trausti  Jónsson minnist hér á Jón Ólafsson langafa bloggarans og skrifar:

“Jón ritstjóri Ólafsson

Þegar sendingar veðurskeyta hófust héðan árið 1906 fór fréttablaðið Reykjavík (undir ritstjórn Jóns Ólafssonar) fljótlega að birta veðurskeyti frá nokkrum veðurstöðvum. Þar fylgdu með nöfn á hinum 13 stigum Beaufort-kvarðans. Líklegt er að Jón hafi sjálfur raðað nöfnunum á kvarðann:

 • 0 Logn (logn)
 • 1 Andvari (andvari)
 • 2 Kul (kul)
 • 3 Gola (gola)
 • 4 Kaldi (stinningsgola, blástur)
 • 5 Stinningsgola (kaldi)
 • 6 Stinnings kaldi (stinningskaldi)
 • 7 Snarpur vindur (allhvass vindur)
 • 8 Hvassviðri (hvassviðri)
 • 9 Stormur (stormur)
 • 10 Rokstormur (rok)
 • 11 Ofsaveður (ofsaveður)
 • 12 Fárviðri (fárviðri)

Eru hér að mestu komin sömu nöfnin og Veðurstofan notaði síðar í veðurspám, þau má sjá í sviganum í töflunni. Fyrstu stigin þrjú, frá logni til kuls, eru gjarnan kölluð hægviðri og reyndin var sú að orðið gola var oftast notað sem samheiti á 3 til 4 vindstigum eins og í töflu Jóns Eyþórssonar, svo sem áður var getið”. 

Mikið yrði ég þakklátur ef veðurfræðingar og veðurfréttamenn færu aftur að nota gömlu góðu vindstigin og veðurnöfnin í veðurfréttunum  🙂

 

Í fyrirsögn pistilsins var spurt  “Vindstig eða m/s:  Hvort skilur almenningur betur?”

Sjálfur skil ég vindstigin og samsvarandi heiti betur, miklu betur !

 

 

Smá fróðleikur um vindrafstöðvar:

Mesta virkjanlegt afl í vindinum fæst með þessari jöfnu:

 

 P = 1/2  ξ  ρ  x  A  x  v3      

þar sem

P = afl (Wött)

ξ  = nýtnistuðull

ρ = þéttleiki lofts (kg/m3)

A = flöturinn sem vindurinn fer um (m2)

v = vindhraði (m/s)

 

Sem sagt, aflið mælt í wöttum fylgir vindhraðanum í þriðja veldi (v3).  Sjá hér.

 (Þetta sýnir okkur hvernig aflið eða eyðileggingarmáttur vindsins vex hratt með vindhraðanum).