Þetta reddast…!

thedda-reddast-web

Við Íslendingar erum dálítið sérstakir. Við erum stundum djarfir og áræðnir, fullir sjálfstrausts. Þrátt fyrir heimóttaskap sem einkennir okkur stundum, er eitthvað sérstakt í þjóðarsálinni sem erfitt er að útskýra. Það reddast, segjum við. – Það reddast, hugsum við. Það merkilega er að oft reddast það! … Hvers vegna?
.
Við fórum þjóða fyrst á hausinn fyrir átta árum. Sukkum dýpst allra. Guð blessi Ísland sagði Geir. Nú nokkrum árum síðar er landið risið. Næstum að minnsta kosti. Þjóðarframleiðslan hærri en í nágrannalöndum. Miklu hærri. Blessaði guð virkilega Ísland?
.
Ég er ekki viss. Kannski var það ekki guð. Kannski var það þetta “eitthvað” sem er innra með okkur öllum Íslendingum. Þetta sem hefur límt okkur saman í þúsund ár. Þetta sem hvatti okkur til að ryðjast út á örskömmum tíma til Íslands, landsins okkar, fyrir árþúsundi. Þetta sem hjálpaði okkur að lifa af í harðbýlu landi í þúsund ár. Þetta sem gerði okkur kleift að fara úr örbirgð í auðlegð á nokkrum áratugum, byggja upp nútíma þjóðfélag með öllum innviðum á undarskömmum tíma. Það er einmitt þetta eitthvað sem er innra með okkur sem við verðum að varðveita og skila til næstu kynslóða.
.
En, spurningin stóra er, hvað er þetta eitthvað? Er það eitthvað sérstakt sem einkennir okkur Íslendinga umfram aðrar þjóðir?
.
Hvað þetta er skiptir auðvitað engu máli. Ekki nokkru. Það sem skiptir máli er að við varðveitum um alla framtíð, hve löng sem hún verður, þessi einkenni okkar. Aldei að gefast upp. Aldrei. Þetta reddast allt einhvern tíman.

..

Kannski er þetta “eitthvað” bara glópalán…

Það reddast